Dagsetning                              Tilvísun
07.feb. 1990                                         14/90

 

Virðisaukaskattur við sölu á uppboði.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 10. janúar sl., þar sem varpað er fram nokkrum spurningum um innheimtu virðisaukaskatts við nauðungaruppboð á fasteignum og lausafé og frjáls uppboð á lausafé.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

I.

Uppboðshaldarar eru almennt skyldir til að innheimta virðisaukaskatt af söluandvirði og standa skil á honum til ríkissjóðs, sbr. 5. tölul. l. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988. Gildir þetta jafnt um hina opinberu uppboðshaldara, sbr. lög nr. 74/1972, og þá sem hafa með höndum frjáls uppboð samkvæmt lögum nr. 36/1987, um listmunauppboð o.fl. Uppboðshaldarar skulu tilkynna um starfsemi sína til skráningar hjá skattstjóra samkvæmt því sem fram kemur í 5. gr. laganna.

Sá þáttur starfsemi uppboðshaldara sem felst í nauðungarsölu fasteigna ásamt tilheyrandi fylgifé er þó ekki skráningarskyldur. Uppboðshaldarar sem eingöngu selja á listmunauppboðum listaverk sem falla undir tollskrárnúmer 9701.1000 til 9703.0000 eru einnig undanþegnir skráningarskyldu. Hins vegar innheimta þeir 10% höfundaréttargjald af seldum listmunum, sbr. 3. gr. laga nr. 36/1987.

II.

Innheimta skal virðisaukaskatt af sölu á uppboði samkvæmt almennum reglum laga nr. 50/1988. Skulu nokkrar þær helstu reifaðar:

a) Fasteign er ekki vara í skilningi virðisaukaskattslaga og sala fasteignar á uppboði er því ekki skattskyld til virðisaukaskatts. Sama gildir um hlutabréf, skuldabréf og önnur slík viðskiptabréf, svo og mynt og frímerki – þegar um er að ræða greiðslumiðil en ekki söfnunargripi eða prentvarning.

b) Ekki skal reikna virðisaukaskatt við sölu úr búi manns á nauðungaruppboði, nema munirnir hafi verið notaðir við sjálfstæða starfsemi (atvinnurekstur) hans eða þeir ekki verið tollafgreiddir. Almennt séð er sala úr búi félags virðisaukaskattsskyld.

c) Sala skipa og loftfara, þó ekki skemmtibáta og einkaloftfara, er undanþegin virðisaukaskatti. Undanþágan tekur einnig til fasts útbúnaðar skips. Veiðarfæri, fiskikassar og annað lausafé telst ekki til fasts útbúnaðar skips í þessu sambandi. Séu slíkir lausafjármunir seldir með skipi skal uppboðsréttur meta hlutfall þeirra af heildarverðmætum sem boð tekur til.

d) Við sölu annarra eigna en upp eru taldar í liðum a til c skal innheimta virðisaukaskatt af uppboðsandvirði við sölu á nauðungaruppboði. Gildir þetta jafnt um nýja hluti og notaða. Þannig skal innheimta virðisaukaskatt við sölu á vörubirgðum, vélum, tækjum og öðrum rekstrarfjármunum sem stafa frá atvinnustarfsemi, hvort sem hún er eða var skattskyld eða undanþegin virðisaukaskatti. Meðal annars, skal reikna virðisaukaskatt af uppboðsandvirði rekstrarfjármuna, vörubirgða og innréttinga, sem ekki teljast til fasteignar, er seldar kunna að vera ásamt fasteign. Taki boð bæði til fasteignar og lausafjármuna skal meta hlutfall lausafjármunanna af heildarandvirði.

e) Sala á frjálsu uppboði er ætíð skattskyld til virðisaukaskatts.

III.

Skattverðið – sú fjárhæð sem virðisaukaskattur er reiknaður af – er uppboðsverði á að meðtöldum sölulaunum eða innheimtulaunum og öllum öðrum kostnaði sem kaupandi kann að vera krafinn um vegna sölunnar, sbr. 7. gr. laga nr. 50/1988.

Við sölu sem undanþegin er virðisaukaskatti reiknast ekki skattur á sölulaun og kostnað.

Við sölu notaðrar fólksbifreiðar fyrir færri en níu menn – þó ekki ef um er að ræða bifreið sem notuð hefur verið í bílaleigustarfsemi – má ákveða skattverð samkvæmt ákvæðum 10. gr. laga nr. 50/1988, þ.e. miða skattverð við 80,32% af samtals uppboðskostnaði að meðtöldum sölulaunum eða innheimtulaunum.

Hafi fólksbifreiðin verið notuð í bílaleigustarfsemi skal ákveða skattverð samkvæmt almennum reglum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.