Dagsetning                       Tilvísun
28. sep. 1990                             138/90

 

Virðisaukaskattur af dýpkunarframkvæmdum í höfnum.

Með bréfi yðar, dags. 18. sept. sl., er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort vinna við dýpkunarframkvæmdir í höfnum sé að öllu leyti virðisaukaskattsskyld eða hvort undanþáguákvæði laga um virðisaukaskatt taki til einhverra þátta þessarar þjónustu.

Til svars erindinu skal tekið fram að samkvæmt meginreglu laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er öll vinna og þjónusta, hverju nafni sem nefnist, sem veitt er í atvinnuskyni, virðisaukaskattsskyld. Dýpkunarframkvæmdir í höfnum felast annars vegar í gröfuvinnu eða dælingu efna af sjávarbotni og hins vegar flutningi efnis á losunarstað. Eins og yður er kunnugt var síðari þátturinn undanþeginn söluskatti á sínum tíma eins og vöruflutningar almennt. Vöruflutningar innanlands eru nú virðisaukaskattsskyldir samkvæmt þeirri meginreglu laga nr. 50/1988 sem að ofan greindi.

Ekki verður séð að neitt undanþáguákvæði laganna eigi við um dýpkunarframkvæmdir í höfnum hér á landi eða einstaka verkþætti þeirra. Samkvæmt því er þessi starfsemi virðisaukaskattsskyld að fullu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.