Dagsetning Tilvísun
14. jan. 1991 211/91
Virðisaukaskattur af þjónustu hafnarvogar og sölu á köldu vatni.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 7. janúar 1991, þar sem spurt er:
(1) hvort þjónusta hafnarvogar (vogargjöld) sé talin til virðisaukaskattsskyldar starfsemi og
(2) hvort sala á köldu vatni samkvæmt mælum til atvinnustarfsemi, t.d. fiskvinnslufyrirtækja sé virðisaukaskattsskyld.
Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:
Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, er starfsemi hafnarsjóða ekki skattskyld nema að því leyti sem um er að ræða sölu á vörum eða skattskyldri þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Að áliti ríkisskattstjóra verður ekki talið að meginstarfsemi hafnarvoga sé í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Vísast í þessu sambandi til 2. gr., sbr. 3. gr. reglug. nr. 489/1990, um vigtun sjávarafla, þar sem þess er krafist að allur afli sem kemur á land skuli veginn á hafnarvog í eigu viðkomandi hafnar. Samkvæmt þessu skal ekki innheimta virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir þjónustu hafnarvogar.
Starfsemi vatnsveitu er ekki skattskyld nema að því leyti sem hún selur vöru eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. reglug. nr. 248/1990. Sala á köldu vatni til atvinnustarfsemi er því ekki virðisaukaskattskyld starfsemi, hvort sem vatn er selt samkvæmt mæli eða á annan hátt.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.