Dagsetning Tilvísun
23. sept. 1991 348/91
Virðisaukaskattur – skattverð – afsláttur frá söluverði.
Með bréfi yðar, dags. 21. september 1990, er leitað álits ríkisskattstjóra á túlkun 3. tölul. 5. mgr. 13. gr. virðisaukaskattslaga, en samkvæmt því lagaákvæði er heimilt að draga afslátt, sem veittur er eftir að afhending hefur átt sér stað, frá skattskyldri veltu á viðkomandi uppgjörstímabili ef hann er veittur aðila sem getur dregið virðisaukaskattinn frá sem innskatt í uppgjöri sínu, sbr. 3. og 4. mgr. 15. gr. laganna, og skilyrði til að veita afslátt voru ekki fyrir hendi við afhendingu. Jafnframt er kveðið á um það að „afsláttur af þessu tagi til annarra er ekki frádráttarbær“.
Kemur fram í bréfi yðar að fyrir gildistöku virðisaukaskattslaga hafi fyrirtækið veitt viðskiptavinum, sem voru í reikningsviðskiptum, afslátt vegna viðskipta í hverjum mánuði með því að gefa út kreditreikning í lok hans. Við upptöku virðisaukaskatts hafi þessu verið breytt á þann veg að fastur afsláttur komi fram á hverjum sölureikningi. Þá segir að viðskiptamenn í reikningsviðskiptum séu mjög óánægðir með þessa nýju aðferð og hafi m.a. bent á að hægt sé að komast hjá reglum virðisaukaskattslaga með því að gefa út afhendingarseðla fyrir einstökum úttektum og síðan sölureikning í lok mánaðar.
Ríkisskattstjóri skilur fyrirspurn yðar svo að átt sé við óskilyrta afslætti en ekki afslætti sem ekki eru háðir skilyrði, t.d. um magn viðskipta á ákveðnu tímabili eða greiðslu innan tiltekins tíma.
Virðisaukaskattslög gera greinarmun á afslætti sem veittur er við afhendingu og afslætti sem veittur er síðar, sbr. 5. tölul. 2. mgr. 7. gr. Afsláttur sem veittur er við afhendingu dregst frá söluverði við ákvörðun skattverðs. Afsláttur sem veittur er eftir afhendingu telst til skattverðs, en heimilt er að draga hann frá við uppgjör á skattskyldri veltu, þ.e. heildarsölu hvers uppgjörstímabils, ef öll eftirtalin skilyrði eru uppfyllt:
1) Kaupandi sé skattskyldur aðili sem hafi getað reiknað virðisaukaskattinn af upphaflegum reikningi til innskatts í bókhaldi sínu.
2) Skilyrði til að veita afslátt voru ekki fyrir hendi við afhendingu.
3) Seljandi gefi út kreditreikning þar sem virðisaukaskatturinn komi sérstaklega fram.
Afsláttur sem veittur er eftir afhendingu vegna sölu til óskráðs aðila er ekki frádráttarbær og kemur fram í greinargerð með virðisaukaskattslögum að ástæða þessa banns sé að ógerningur sé fyrir skattyfirvöld að fylgjast með því að slíkir afslættir séu ekki misnotaðir.
Misskilningur er að hægt sé að komast hjá þessum reglum með útgáfu afgreiðsluseðlis í stað sölureiknings, enda miðast tímamörk reglnanna við afhendingu en ekki reikningsútgáfu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.