Dagsetning Tilvísun
23. sept. 1991 349/91
Virðisaukaskattur af námskeiðum og gistingu.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 2. apríl 1990, þar sem óskað er leiðbeininga ríkisskattstjóra um meðferð virðisaukaskatts vegna starfsemi biblíuskóla sem samtök innan þjóðkirkjunnar standa að. Einnig er spurt um virðisaukaskatt af sölu gistiþjónustu við heimavist skólans þegar námskeið standa ekki yfir.
Samkvæmt gögnum sem fylgja erindinu er tilgangur kennslunnar m.a. að veita leikmönnum og prestum bæði fræðilega og hagnýta þekkingu á kristinni trú og þjálfun til safnaðarstarfs innan kirkjunnar. Ríkisskattstjóri lítur svo á að í megindráttum sé hér um að ræða sambærilegt nám í kristnum fræðum og veitt er í hinu almenna skólakerfi. Samkvæmt því eru skóla- eða námskeiðagjöld biblíuskólans undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga.
Varðandi gistiþjónustu vísast til 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt þar sem fasteignaleiga, þ.m.t. leiga hótel- og gistiherbergja er undanþegin virðisaukaskatti. Sala fæðis í atvinnuskyni er þó skattskyld, enda nemi samtals sala á fæði og annarri skattskyldri vöru eða þjónustu a.m.k. 172.300 kr. á ári (fjárhæð miðast við byggingarvísitölu l. jan. sl.).
Undanþágur frá innheimtu virðisaukaskatts sem nefndar eru hér að framan taka ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.