Dagsetning Tilvísun
31. sept. 1991 352/91
Virðisaukaskattur – umsjónarmenn þátta í útvarpi.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 16. október sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts vegna umsjónarmanna þátta fyrir sjónvarp.
Starfinu er lýst þannig að umsjónarmaður ákveður sjálfur viðfangsefni sitt fyrir hvern þátt. Hann skipuleggur efnistök, viðfangsefni og meðferð þess. Hann aflar heimilda um viðfangsefnið. Að lokinni upplýsingaöflun er texti þáttarins saminn sem er samsetning að þeim upplýsingum sem fram hafa komið og niðurstöður dregnar af þeim. Þegar handrit er tilbúið gerir þáttagerðarmaður tillögur um myndskreytingar til stuðnings textanum og handrit látið í hendur dagskrárgerðarmanns eða framleiðanda þáttarins sem fullgerir hann. Sömuleiðis er það í verkahring þáttagerðarmanns að lesa eða flytja textann.
Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:
Samkvæmt 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt er starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi undanþegin virðisaukaskatti. Sú starfsemi að rita grein í blað eða tímarit gegn gjaldi fellur hér undir. Ríkisskattstjóri lítur svo á að þetta undanþáguákvæði taki einnig almennt til höfunda og flytjenda efnis í útvarp og sjónvarp.
Öðru máli gegnir hins vegar um þá sem láta útvarpsstöð í té fullbúið efni til flutnings eða sýningar, enda er þá ekki um að ræða sölu á þjónustu heldur vörusölu sem ætíð fellur innan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaga.
Samkvæmt framansögðu virðist starfsemi yðar undanþegin virðisaukaskatti. Undanþágan veldur því að þér hafið ekki rétt til endurgreiðslu innskatts af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.