Dagsetning Tilvísun
31. sept. 1991 354/91
Endurgreiðsla virðisaukaskatts af kennslutæki.
Með bréfi, dags. 16. október sl., fer P þess á leit við ríkisskattstjóra að hún „verði undanþegin því að greiða virðisaukaskatt af tölvubúnaði, sem ætlaður er til kennslu og tilrauna“. Um stofnunina segir að markmið hennar sé að auka framleiðni og gæði í íslenskum prentiðnaði, þannig að hann verði samkeppnisfærari við erlent prentverk. Stofnunin er að jöfnu í eigu atvinnurekenda og starfsmanna í iðngreininni.
Til svars erindinu skal tekið fram að þeir sem selja í atvinnuskyni vöru og skattskylda þjónustu skulu tilkynna um starfsemi sína til skráningar hjá viðkomandi skattstjóra og öðlast þá rétt til endurgreiðslu þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af aðföngum sínum eftir því sem nánar segir í lögum um virðisaukaskatt.
Af erindi yðar verður ekki ráðið að stofnunin selji virðisaukaskattsskylda þjónustu, svo sem rekstrarráðgjöf til einstakra fyrirtækja. Tekið skal fram að flest kennslustarfsemi, svo sem námskeið sem fela í sér faglega menntun, er utan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaga og hafa þeir sem slíka starfsemi hafa með höndum ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðföngum.
Ríkisskattstjóri hefur ekki lagaheimild til að veita sérstakar undanþágur frá greiðslu virðisaukaskatts af aðföngum óskráðra aðila.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.