Dagsetning                       Tilvísun
31. sept. 1991                             355/91

 

Virðisaukaskattur af ábyrgðarviðgerðum.

Fram hefur komið af hálfu B að algengt sé að kostnaði vegna viðgerðar á ábyrgðartíma sé skipt milli bifreiðainnflytjanda og framleiðanda. Hins vegar liggi ekki alltaf ljóst fyrir þegar viðgerð er lokið hvernig kostnaði skuli skipt. Mun framkvæmd þessara mála vera með þeim hætti að innflytjandi útbýr svokallaða claimskýrslu og sendir framleiðanda sem síðan úrskurðar hve mikinn hluta kostnaðar honum beri að greiða.

Af þessu tilefni skal tekið fram að ríkisskattstjóri lítur svo á að afhending ábyrgðarviðgerðar hafi ekki átt sér stað í skilningi 1. mgr. 13. gr. laga um virðisaukaskatt fyrr en hinn erlendi ábyrgðarveitandi hefur samþykkt skýrslu viðgerðarmanns (bifreiðainnflytjanda) og þannig skuldbundið sig til að greiða kostnaðinn. Þannig er viðgerðarmanni ekki skylt að gefa út sölureikning vegna ábyrgðarviðgerðar fyrr en ljóst er hvort ábyrgðarveitandi greiðir kostnað eða hversu mikinn hluta hans. Þessi regla á að sjálfsögðu ekki við þegar viðgerð er unnin samkvæmt pöntun. Gefi viðgerðarmaður út reikning áður en kaupandi hefur staðfest viðskiptin ber að telja söluna til skattskyldrar veltu miðað við útgáfudag reiknings, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga um virðisaukaskatt. Greiði ábyrgðarveitandi inn á viðgerð áður en hann samþykkir skýrslu teljast 80,32% af hinni mótteknu fjárhæð til skattskyldrar veltu viðgerðarmanns á því tímabili sem greiðsla fer fram, sbr. 3. mgr. 13. gr. laganna.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.