Dagsetning                       Tilvísun
4. nóvember. 1991                            356/91

 

VSK – Sala á H miðum frá Happdrætti Háskóla Íslands.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 24. október sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á eftirfarandi:

  1. Hvort sala á H miðum sé undanþegin virðisaukaskatti?
  1. Hvort aðilum sem selja H miða sé heimilt að aðgreina þá sölu frá virðisaukaskattsskyldri sölu og ekki skylt að skrá söluna í sjóðvél?

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

  1. Happdrætti og getraunastarfsemi eru undanþegin virðisaukaskattsskyldu, sbr. 11. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Undanþágan tekur einnig til þess hluta söluandvirðis happdrættismiða o.s.frv. sem rennur til söluaðila, þ.e. söluþóknunar. Söluaðilar innheimta því ekki virðisaukaskatt vegna sölunnar af útgefendum happdrættismiða.
  1. Samkvæmt l. málsl. l. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, skulu smásöluverslanir og þjónustusalar, sem nær eingöngu selja til endanlegra neytenda, skrá sérhverja afhendingu eða sölu á vöru, verðmætum eða þjónustu til neytenda í sjóðvél jafnskjótt og salan eða afhendingin fer fram. Ríkisskattstjóri lítur svo á að þessi regla taki einnig til sölu á happdrættismiðum o.s.frv. Ef ekki er unnt að skrá sölu happdrættismiða o.s.frv. í sérstaka sjóðvél eða í sérstakan teljara í sjóðvél er heimilt gera slíka sölu upp með óbeinni aðferð og færa til frádráttar virðisaukaskattsskyldri veltu. Óbein aðferð felur í sér eftirfarandi:

—         Sala happdrættismiða er skráð í sama teljara sjóðvélar og önnur sala.

—         Í lok hvers uppgjörstímabils eða með öðrum reglulegum hætti skal útsöluverð happdrættismiða eða getraunamiða reiknað samkvæmt reikningum frá útgefanda eftir að sala hefur verið gerð upp við þá, þ.e. eftir að skilaður fjöldi hefur verið frádreginn mótteknum fjölda miða.

—         Samtals uppgerð kaup happdrættismiða o.s.frv. á hverju tímabili skal færa á sérstakan gjaldareikning í bókhaldi og niðurstöðutala hans, að frádregnum áður nýttum frádrætti, skal dregin frá skattskyldri sölu.

Sala happdrættismiða og getraunamiða skal færð á sérstaka teknareikninga í bókhaldi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.