Dagsetning Tilvísun
4. nóvember. 1991 359/91
Innskattur búnaðarfélags.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 8. apríl sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort leyfilegt sé að nýta innskatt af öllum kostnaði búnaðarfélags þrátt fyrir að tekjur þess séu annars vegar framlög úr ríkissjóði og hins vegar vegna seldrar þjónustu.
Til svars erindinu skal tekið fram að búnaðarfélagi ber ekki að innheimta og skila virðisaukaskatti af greiðslum úr ríkissjóði sem ekki teljist endurgjald fyrir veitta skattskylda þjónustu félagsins. Hafi það að öðru leyti með höndum starfsemi sem skattskyld er samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, þ.e. ef starfsemin er „blönduð“, ber að fara með innskatt samkvæmt þeim reglum sem fram koma í II. kafla reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt.
Meginefni reglna um innskatt af blandaðri starfsemi eru þessar:
A. Aðila með blandaða starfsemi er heimilt að telja að fullu til innskatts virðisaukaskatt af vörum og þjónustu sem eingöngu er keypt til nota við hinn skattskylda hluta starfseminnar.
B. Óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af vörum og þjónustu sem eingöngu varðar hinn skattfrjálsa hluta starfsemi aðila með blandaða starfsemi.
C. Um virðisaukaskatt af aðföngum sem bæði varða skattskyldan þátt í starfsemi og skattfrjálsan þátt, svo sem af föstum kostnaði ýmsum, gildir það að hann er heimilt að telja til innskatts í sama hlutfalli og sala skattskyldrar vöru og þjónustu (án virðisaukaskatts) hvers reikningsárs er af heildarveltu ársins. Við þennan útreikning skal ekki taka tillit til sölu rekstrarfjármuna o.fl. sbr. 3. mgr. 11. gr. laga um virðisaukaskatt.
Reglan í C gildir ekki um virðisaukaskattsskylda aðila sem undanþegnir eru tekju- og eignarskatti skv. 4. gr. laga nr. 75/1981. Þeim er aðeins heimill innskattur af þeim aðföngum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu.
Samkvæmt framansögðu er búnaðarfélaginu ekki heimilt að nýta innskatt af öllum kostnaði sínum, heldur verður það að skipta virðisaukaskatti af aðföngum í frádráttarbæran innskatt og virðisaukaskatt sem ekki má telja til innskatts.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.