Dagsetning                       Tilvísun
15. nóvember. 1991                            360/91

 

Virðisaukaskattur – tollfrjáls svæði.

Með bréfi yðar, dags. 28. ágúst 1991, er spurt hvort ríkisskattstjóri telji nokkuð því til fyrirstöðu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt „að ákvæði tollalaga um frísvæði gildi um virðisaukaskatt sem önnur gjöld er leggjast á við innflutning til landsins“. Í bréfinu er vísað til ákvæða IX. kafla tollslaga um tollfrjáls svæði (frísvæði), en í frísvæði felst að heimilt er að flytja þangað vörur án greiðslu aðflutningsgjalda eða gegn endurgreiðslu slíkra gjalda. Samkvæmt 92. gr. laganna geta vörur, sem geymdar eru á frísvæði, hlotið þar aðvinnslu vegna verslunar með þær, m.a. til að auka gæði þeirra og viðskiptavirði.

Til svars erindinu tekur ríkisskattstjóri fram að ákvæði tollalaga gilda um álagningu og innheimtu virðisaukaskatts við innflutning vöru, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um virðisaukaskatt, þ.m.t. þegar vara er flutt inn á frísvæði. Þannig gildir sama regla um virðisaukaskatt og önnur gjöld sem til falla við innflutning að þessu leyti.

Fyrirtæki sem starfar á frísvæði, t.d. við aðvinnslu vöru sem þar er geymd, er skráningarskylt samkvæmt 5. gr. laga um virðisaukaskatt ef það hefur með höndum starfsemi sem fellur undir skattskyldusvið þeirra laga. Almennar reglur virðisaukaskattslaga gilda um sölu innlendra aðila á vöru og þjónustu til fyrirtækis með rekstur á frísvæði. Seljanda bæri að telja slíka sölu til skattskyldrar veltu sinnar og skráður kaupandi fengi virðisaukaskatt af viðskiptunum endurgreiddan sem innskatt eftir venjulegum reglum þar um.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.