Dagsetning                       Tilvísun
2. desember 1991                             362/91

 

Skráning á virðisaukaskattsskrá.

Með bréfi yðar, dags. 12. júní sl., er leitað álits ríkisskattstjóra á nokkrum atriðum varðandi skráningu aðila á virðisaukaskattsskrá. Spurt er:

  1. Hvort skattstjórar eigi að hafa frumkvæði að því að kanna hvort sá sem tilkynnir sig á virðisaukaskattsskrá með starfsemi i iðngrein sem nýtur lögverndar hafi i raun réttindi til þess.
  1. Ef skattstjórar eiga ekki að athuga þetta að eigin frumkvæði, hvort þeir eigi að athuga það ef þeim berst vitneskja um að ákveðinn aðili hafi tilkynnt til skattstjóra að hann stundi lögverndað starf án þess að hafa til þess tilskilin réttindi.

Til svars erindinu skal tekið fram að skráning á virðisaukaskattsskrá, sbr. 5. gr. laga um virðisaukaskatt, er í þágu innheimtu á virðisaukaskatti, en segir ekki til um hvort aðili hafi tilskilin réttindi til vinnu í iðngrein eða ekki. Vöntun tilskilinna atvinnuréttinda þess sem selur skattskylda þjónustu í atvinnuskyni breytir ekki virðisaukaskattsskyldu hans samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Það er ekki á valdi skattstjóra að meta hvort skattaðili fullnægir skilyrðum samkvæmt öðrum lögum en skattalögum til starfsemi sem hann hyggst stunda hverju sinni.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.