Dagsetning Tilvísun
12. nóvember. 1991 364/91
Virðisaukaskattur – sala félagasamtaka á vörum og skattskyldri þjónustu.
Ríkisskattstjóri lítur svo á að almenn félagasamtök, sem undanþegin eru skattskyldu samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt, svo sem stjórnmálaflokkar og nemendafélög, séu undanþegin skráningarskyldu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt vegna sölu sinnar á vöru og skattskyldri þjónustu þegar salan er eingöngu til félagsmanna þeirra samtaka sem í hlut eiga. Gildir þetta m.a. um verslun með sælgæti, gosdrykki og skyldar vörur (sjoppur) á vegum félagasamtaka, enda sé eingöngu selt til félagsmanna.
Sé sala félagasamtaka að einhverju leyti út fyrir raðir félagsmanna er hún virðisaukaskattsskyld í heild sinni, þ.e. bæði sala til félagsmanna og utanfélagsmanna, að uppfylltum almennum skilyrðum fyrir skráningu (hagnaðartilgangur, veltumörk o.fl.). Meta skal starfsemi félags heildstætt í þessu sambandi, þannig að þjónustusala út fyrir félagið, t.d. auglýsingasala til fyrirtækja og stofnana, getur leitt til skráningarskyldu sem einnig tæki t.d. til reksturs sjoppu í félagsheimili.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.