Dagsetning                       Tilvísun
12. desember 1991                             366/91

 

Endurgreiðsla virðisaukaskatts af kirkjubyggingu.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 12. sept. sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna byggingar kirkju, þar á meðal hvort reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, geti átt við.

Til svars erindinu skal tekið fram, að reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, heimilar aðeins endurgreiðslur vegna vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Því getur ekki komið til endurgreiðslu vegna byggingar kirkju á grundvelli þeirrar reglugerðar.

Reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, heimilar ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum svo og sveitarfélögum að fá endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu sérfræðinga. Einstakir söfnuðir þjóðkirkjunnar geta að áliti ríkisskattstjóra ekki talist ríkisstofnanir í þessu sambandi. Þeir eiga því ekki heldur rétt á endurgreiðslu samkvæmt þessum reglum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.