Dagsetning                       Tilvísun
12. desember 1991                             367/91

 

Virðisaukaskattur – sala aðstöðu til vörukynningar.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 21. október sl., þar sem óskað er leiðbeininga ríkisskattstjóra um meðferð virðisaukaskatts þegar fyrirtæki, sem hefur á leigu húsnæði, endurleigir afmörkuð svæði til vörukynningar og sölu um tiltekinn tíma.

Til svars erindinu skal tekið fram að fasteignaleiga er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, nema leigusali hafi fengið heimild til frjálsrar skráningar, sbr. 6. gr. laganna.

Undanþáguákvæði 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. á ekki við hafi kaupandi þjónustunnar („leigutaki“) ekki nein umráð yfir viðkomandi húsnæði, sem jafnað verður við almenn réttindi leigutaka að fasteign. Útleiga á rými (básum) til vörukynningar og sölustarfsemi er talin skattskyld aðstöðusala en ekki fasteignaleiga. Í þessu falli skal skráningarskyldur seljandi innheimta og skila virðisaukaskatti af heildarendurgjaldi sem einstakir sýnendur greiða fyrir aðstöðuna, svo og vegna kaupa á annarri skattskyldri þjónustu og vörum. Sala á efni og vinnu við uppsetningu sýningarbása o.fl. er skattskyld. Aðgangseyrir, sem almenningur kann að vera krafinn um að sýningar- eða sölusvæði, er jafnframt skattskyldur.

Af því sem fram kemur í bréfi yðar virðist mega ráða að sú starfsemi, sem þar er gerð grein fyrir, falli í síðarnefnda flokkinn.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.