Dagsetning Tilvísun
8.janúar 1990 2/90
Virðisaukaskattur af starfsemi sagnfræðinga.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 11. okt. sl., þar sem spurt er hvort starfsemi sagnfræðinga sé virðisaukaskattsskyld. Í bréfi yðar er störfum sagnfræðinga lýst svo:
„Starf sagnfræðinga er fyrst og fremst skriftir og samning texta, að undangengnum meiri eða minni sagnfræðilegum rannsóknum. Rannsóknirnar eru gerðar með könnun heimilda, prentaðra sem óprentaðra (á skjala- og bókasöfnum), muna og minja, verkfæra og véla, viðtölum við heimildarmenn, vettvangsskoðanir o.fl. allt eftir eðli verksins. Við þetta nota menn háskólamenntun sína í faginu, þekkingu og.heimildarýni eftir bestu getu.
Skriftir sagnfræðinga geta verið bæði stórar og smáar í sniðum, allt frá greinum í tímarit eða bækur upp í stór sjálfstæð rannsóknarverk í mörgum bindum. Hluti af samningu sagnfræðilegra verka er að mæta þeim formlegu eða ytri kröfum sem gerðar eru til rannsóknarverka í akademískri sagnfræði. Þ.e. að þeim fylgi ekki aðeins tilvísanir í heimildir, heldur ýmsar skrár, s. s. nafna-, atriðisorða- og heimildaskrár. Þegar rit er búið til útgáfu þarf einnig að prófarkalesa, sem höfundur gerir og fær jafnvel aðra sér til aðstoðar, svo sem títt er við bókaútgáfu.
Undir starf sagnfræðinga getur líka stundum fallið að búa til prentunar hugverk annarra manna, lifandi eða látinna, og ýmiss konar heimildir (t.d. skjöl). Hið síðarnefnda er nauðsynlegt fyrir fræðilegar rannsóknir í háskólum og í akademískri sagnfræði yfirleitt. Í því felst að fara verður yfir textann, gera upp á milli ólíka afbrigða af textanum, laga, samræma og breyta allt eftir eðli verksins. Svipað er staðið að verki við frumsömdum texta annarra. Með þessari vinnu er haldið áfram þeirri vinnu við textann (samningu) sem höfundur lauk ekki, eða gat ekki lokið.“
Að mati ríkisskattstjóra er sú starfsemi sagnfræðinga sem felst í sagnfræðilegum rannsóknum og frumsamningu texta á grundvelli þeirra undanþegin virðisaukaskatti skv. 4. og 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Tilheyrandi ritvinnsla, prófarkalestur og samning skráa (nafnaskrár o.s.frv.) fellur undir undanþáguna.
Atvinnustarfsemi sem felst í því að búa rit annarra manna undir prentun er virðisaukaskattsskyld útgáfuþjónusta. Einnig er prófarkalestur, ritvinnsla o.s.frv., sem ekki er í tengslum við eigin hugverk, skattskyld starfsemi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.