Dagsetning                       Tilvísun
31. janúar 1992                            376/92

 

Form sölunreikninga.

Með bréfi yðar, dags. 4. október sl., er þeirri spurningu beint til ríkisskattstjóra hvernig hugbúnaðarfyrirtæki skuli bregðast við óskum viðskiptavina sinna um að setja reikninga þeirra upp á A-gíróseðilsform.

Eins og fram kemur í bréfi yðar er skráðum aðilum samkvæmt lögum um virðisaukaskatt skylt að gefa út sölureikninga sem m.a. eru fyrirfram tölusettir, sbr. l. mgr. 20. gr. laganna. Í reglugerð nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, er jafnframt ákvæði um að sölureikningar skuli vera í þríriti (3. mgr. 4. gr.).

Samkvæmt framangreindri reglugerð, eins og henni hefur verið breytt með reglugerð nr. 156/1990, getur ríkisskattstjóri heimilað aðila frávik frá einstökum ákvæðum hennar um tekjuskráningu, sjá nánar meðf. ljósrit af 9. gr. reglugerðarinnar. Af hálfu embættisins er litið svo á að aðeins sé unnt að veita undanþágu frá þeim nánari fyrirmælum sem felast í reglugerðinni umfram þær reglur sem fram koma í lögunum sjálfum (fjöldi eintaka sölureikninga o.fl.). Því er t.d. ekki unnt að veita undanþágu frá þeirri reglu að reikningseyðublöð skuli vera fyrirfram tölusett.

Skilyrði undanþágu er að aðili sýni fram á öruggt skráningar- og eftirlitskerfi með sölureikningum eða gefi út reglur, sem ríkisskattstjóri telur fullnægjandi, um skráningu sölureikninga.

Ýmsir aðilar, svo sem orkusölufyrirtæki, hafa fengið undanþágu samkvæmt framangreindu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.