Dagsetning                       Tilvísun
31. janúar 1992                            379/92

 

Virðisaukaskattur – námskeið vegna byssuleyfa.

Með bréfi yðar, dags. 12. ágúst 1991, er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort sjálfstætt starfandi leiðbeinendum á námskeiðum, sem dómsmálaráðuneytið og Lögreglustjóraembættið í Reykjavík halda fyrir umsækjendur um byssuleyfi, beri að innheimta og skila virðisaukaskatti, sbr. lög nr. 50/1988.

Til svars erindinu tekur ríkisskattstjóri fram að hverjum þeim sem í atvinnuskyni selur skattskylda þjónustu fyrir meira en 183.000 kr. á ári ber að tilkynna um starfsemi sína til skattstjóra og innheimta og standa skil á virðisaukaskatti af sölu sinni.

Kennsla á námskeiðum vegna byssuleyfis er að áliti ríkisskattstjóra skattskyld starfsemi, sbr. meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, en samkvæmt skýringu í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga tekur undanþáguákvæði laganna um rekstur skóla og menntastofnana (3. tölul. 3. mgr. 2. gr.) ekki til kennslustarfsemi af því tagi sem hér um ræðir.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.