Dagsetning                       Tilvísun
31. janúar 1992                            380/92

 

Virðisaukaskattur af starfsemi ríkisstofnunar.

Með bréfi yðar, dags. l. febrúar 1990, er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort starfsemi framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins sé virðisaukaskattsskyld, en starfsemin felst í því að hafa umsjón með opinberum byggingaframkvæmdum, sbr. lög um opinberar framkvæmdir nr. 63/1970. Fram kemur í erindinu að rekstrarkostnaður stofnunarinnar er greiddur af framlögum til þeirra verkefna sem hún annast. Greiðslur til stofnunarinnar munu vera ákveðnar sem hlutfall af byggingarkostnaði viðkomandi verks en miðast ekki við útselda tíma o.þ.h.

Að áliti ríkisskattstjóra er lögbundið eftirlit stofnunarinnar með opinberum framkvæmdum ekki í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Þessi starfsemi virðist fyrst og fremst af stjórnsýslulegum toga spunnin og er þá meðal annars litið til þess hvernig rekstur framkvæmdadeildar er fjármagnaður. Samkvæmt þessu tekur ákvæði 4. tölul. l. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt ekki til framkvæmdadeildar, að því er varðar umrædda starfsemi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.