Dagsetning            Tilvísun
08.janúar 1990                4/90

Virðisaukaskattur af starfsemi landpósta.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 30. nóvember sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort landpóstar verði háðir ákvæðum laga um virðisaukaskatt. Í bréfi yðar kemur fram að landpóstar annast póstþjónustu í dreifbýli. Segir að í því felist skil og viðtaka bréfa- og bögglapóstsendinga, innheimta á póstkröfum, gírógreiðslum o.s.frv., svo og önnur störf sem þeim kunna að vera falin af póst- og símamálastofnuninni og samrýmast starfi þeirra. Landpóstar leggja til eigin bifreiðar og skulu þær vera auðkenndar með skilti með orðinu „PÓSTUR“. Póst- og símamálastofnunin leggur landpóstum til áhöld og annan útbúnað, svo og sjóð sem ákveðinn er af hlutaðeigandi stöðvarstjóra. Landpóstar skulu starfa samkvæmt fyrirfram gerðri áætlun og mega ekki í póstferðum taka upp í bifreið eða flytja farþega nema starfsmenn póst- og símamálastofnunarinnar. Þeir eru ábyrgir fyrir póstsendingum og fjárreiðum.

Að mati ríkisskattstjóra fellur starfsemi landpósta, eins og henni er lýst í bréfi yðar, undir undanþáguákvæði tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt (póstþjónusta). Af því leiðir að landpóstar innheimta ekki virðisaukaskatt af þeirri þóknun sem póst- og símamálastofnunin greiðir þeim fyrir umrædd störf og þeir hafa engan frádrátt virðisaukaskatts (innskattsfrádrátt) af aðföngum til þessarar starfsemi sinnar.

Hins vegar ber að greiða virðisaukaskatt af sjálfstæðri vöruflutningaþjónustu sem aðili kann að hafa með höndum samhliða landpóstsstarfa.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.