Dagsetning Tilvísun
17. jan. 1990 6//90
Um virðisaukaskatt af sölu ÁTVR.
Vísað er til bréfs yðar dags. 17. nóvember 1989 þar sem leitað er samþykkis ríkisskattstjóra á fyrirhuguðum breytingum á innheimtu miðað við þá innheimtu sem tíðkaðist í söluskatti.
- Sala á tóbaki.
Ekkert samsvarandi ákvæði er í virðisaukaskattslögum og í söluskattslögum varðandi innheimtu ÁTVR á söluskatti þegar selt er til smásöluaðila þannig skal ÁTVR einungis innheimta virðisaukaskatt af heildsöluverði tóbaks, en ekki af smásöluverði eins og gert var í söluskattskerfinu.
- Afsláttur af tóbakssölu.
Eins og fram kemur í 5. tl. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þá skal óskilyrtur afsláttur, sem veittur er við afhendingu á hinni seldu vöru, dreginn frá söluverði við ákvörðun skattverðs. Samkvæmt þessu þá ber að reikna virðisaukaskatt á reikningsupphæð að frádregnum afslætti ( þ. e. á skattverð).
- Áfengissala til veitingahúsa.
ÁTVR skal innheimta virðisaukaskatt af áfengissölu til veitingahúsa, sbr 1. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
- Sala í tollvörugeymslur.
Þegar ÁTVR selur áfengi og tóbak til tollfrjálsra verslana ber að innheimta virðisaukaskatt af þeirri sölu, sbr. 14. gr. laga nr. 119/1989, um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Aftur á móti ber ekki að innheimta virðisaukaskatt þegar selt er til tollfrjálsra forðageymsla, þ.e. þegar ÁTVR selur áfengi og tóbak á frílager flug- og skipafélaga.
- Útlit sölureikninga.
Reikningseyðublöð skulu vera með fyrirfram áprentuðum númerum og í samfelldri töluröð. Á sölureikningum skal koma fram nafn og kennitala kaupanda og seljanda, skráninganúmer seljanda, útgáfudagur, tegund sölu, magn, einingarverð, og heildarverð. Reikningur skal bera greinilega með sér hvort virðisaukaskattur er innifalinn í heildarfjárhæð eða ekki. Ennfremur skal sérstaklega koma fram hver fjárhæð virðisaukaskatts er við sölu til skattskylds aðila. Sölureikningar skulu einnig vera a.m.k. í þríriti, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.
Þeir sölureikningar sem ÁTVR sendi ríkisskattstjóra til athugunar voru ekki fullnægjandi að öllu leyti. Þannig voru reikningarnir ekki með fyrirfram áprentuðum númerum. Einnig er nauðsynlegt að skráningarnúmer (virðisaukaskattsnúmer) ÁTVR komi fram á öllum sölureikningum. Tekið skal fram að ekki er nægjanlegt að tölvukerfi gefi sölureikningum númer jafnóðum og þeir eru prentaðir út nema þegar seljandi skráir sölu sína í sjóðvél.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Vala Valtýsdóttir