Dagsetning                       Tilvísun
4. feb. 1993                            447/93

 

Skattskylda opinberrar stofnunar.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 15. október 1992, um virðisaukaskatt af sölu verkefna rannsóknardeildar Vita- og hafnamálaskrifstofunnar. Í bréfi yðar kemur fram að rannsóknardeildin vinnur að frumrannsóknum vegna hafnargerðar og er stærsti hluti starfsins tilraunir í „líkanstöð“ stofnunarinnar. Rannsóknir hafi alfarið verið gerðar fyrir fé af fjárveitingu, en nú sé komið upp tilfelli, þar sem verkefni við líkantilraunir af væntanlegri höfn við Keilisnes verði greidd af öðrum aðila. Einnig kemur fram í bréfi yðar að starfsemi þessi sé ekki í samkeppni við atvinnufyrirtæki.

Það er meginregla samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, að opinber þjónustufyrirtæki skuli greiða virðisaukaskatt af starfsemi sinni. Þau skulu innheimta virðisaukaskatt af heildarveltu sinni og skila honum í ríkissjóð að frádregnum innskatti af aðföngum. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skulu fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga, stofnanir þeirra eða þjónustudeildir, sem hafa það að meginmarkmiði að framleiða vörur eða inna af hendi þjónustu til eigin nota, greiða virðisaukaskatt af starfsemi sinni að því leyti sem hún er rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki.

Rannsóknardeild Vita- og hafnamálaskrifstofunar vinnur að tilraunaverkefnum, sem ekki eru rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Sé þannig um að ræða beinar greiðslur til stofnunarinnar samkvæmt reikningi, þá ber stofnunni ekki samkvæmt ofanskráðu að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir.