Dagsetning                       Tilvísun
23. feb. 1993                            450/93

 

Virðisaukaskattur tölvuupplýsingamiðlunar

Vísað er til bréfs yðar, mótt. hjá ríkisskattstjóra þann 10. júlí 1992, þar sem spurt er um virðisaukaskattsskyldu áskriftargjalds að tölvuupplýsinganeti.

Í bréfi yðar segir að gjald fyrir áskrift að fjölmiðli (útvarpi, sjónvarpi, dagblaði og tímariti) sé ekki virðisaukaskattsskyld, og þá spurt hvort það sama gildi um áskriftagjald að tölvuupplýsinganeti S.

Í 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga nr. 50/1988 er að finna undanþágur frá þeirri almennu reglu laganna að öll afhending vöru og verðmæta, vinnu og þjónustu teljist til skattskyldrar veltu. Undanþága samkvæmt þessari grein hefur það í för með sér að útskattur leggst ekki á endurgjald fyrir tiltekna vöru, vinnu eða þjónustu. Hins vegar fæst innskattur (virðisaukaskattur af aðföngum) eftir sem áður dreginn frá eða endurgreiddur eftir almennum reglum laganna.

Undanþáguákvæði 9. tl. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga ber að túlka þröngt og tæmandi talið. Það er að mati ríkisskattstjóra nauðsynleg forsenda fyrir undanþágunni að viðkomandi hafi leyfi yfirvalda til útvarps- eða sjónvarpsrekstrar.

Samkvæmt framansögðu flokkast áskriftagjöld að tölvuupplýsinganeti S ekki undir undanþáguákvæði 9. tl. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir.