Dagsetning Tilvísun
23. feb. 1993 457/93
Innheimta virðisaukaskatts við nauðungaruppboð/-sölu.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 4. júní 1992, varðandi innheimtu virðisaukaskatts við nauðungaruppboð.
Í bréfi yðar kemur fram að bifreið var seld á nauðungaruppboði 12. júní 1990, sem þér áttuð veðrétt í. Þér mótmælið þeirri starfsaðferð bæjarfógeta Dalvíkur við úthlutun uppboðsandvirðis að draga virðisaukaskatt frá þeirri upphæð í stað þess að bæta skattinum við hana.
Samkvæmt 5. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt hvílir skylda á uppboðshöldurum til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð.
Í bréfi ríkisskattstjóra til borgarfógetaembættisins í Reykjavík, dags. 7. feb. 1990, kemur fram sú túlkunarregla að skattverðið – sú fjárhæð sem virðisaukaskattur er reiknaður af – er uppboðsverðið að meðtöldum sölulaunum eða innheimtulaunum og öllum öðrum kostnaði sem kaupandi kann að vera krafinn um vegna sölunnar, sbr. 7. gr. laga nr. 50/1988. Þ.e.a.s. virðisaukaskattur bætist við uppboðsandvirði. Þessari reglu var breytt með auglýsingu nr. 42/1992 um almenna skilmála fyrir uppboðssölu á lausafjármunum o.fl., en í 4. gr. auglýsingar segir, að kaupandi verði ekki krafinn sérstaklega um greiðslu kostnaðar eða greiðslu virðisaukaskatts af sölu hlutar til viðbótar við boð sitt.
Á þeim tíma er áður greint uppboð átti sér stað hefði bæjarfógeta Dalvíkur verið rétt að innheimta virðisaukaskatt af kaupanda bifreiðar auk uppboðsandvirðis.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Vala Valtýsdóttir.
Afrit sent sýslumanni á Akureyri.