Dagsetning                       Tilvísun
23. feb. 1993                            462/93

 

Virðisaukaskattur á keppnis- og æfingagjöld keilara.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 20. ágúst 1992, þar sem farið er fram á túlkun ríkisskattstjóra á virðisaukaskattskyldu keppnis- og æfingagjalda keilara.

Samkvæmt 5. tl. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 er íþróttastarfsemi undanþegin virðisaukaskatti. Jafnframt er sérstaklega kveðið á um það í ákvæðinu að aðgangseyrir að íþróttamótum og íþróttasýningum njóti undanþágu.

Orðið „íþróttastarfsemi“ kom inn í lagatextann með breytingalögum nr. 119/1989. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga er breytingin sögð m.a. hafa þá þýðingu að ýmiskonar æfingagjöld, sem íþróttafélög innheimta af félagsmönnum, falli undir undanþáguákvæðið. Með hliðsjón af þessari skýringu túlkar ríkisskattstjóri undanþáguákvæðið þannig að það taki til allrar sölu íþróttafélaga á aðstöðu til æfinga og iðkunar íþrótta. Með íþrótt er átt við hvers konar líkamlega þjálfun með iðkun íþróttagreinar sem almennt er stunduð innan aðildarfélaga Í, hvort heldur sem tilgangur þjálfunarinnar er keppni og afrek eða stefnt er aðallega að heilsurækt og dægradvöl. Starfsemi S og B hefur verið talin falla hér undir.

Í bréfi yðar kemur fram að keila hafi verið stunduð sem keppnisíþrótt frá 1985, verið innan vébanda X frá 1988, og að keila sé nú iðkuð innan þriggja héraðssambanda, A, U og B.

Eðlilegt þykir að flokka keppnis- og æfingagjöld keilara í viðurkenndu íþróttafélagi undir hugtakið „íþróttastarfsemi“ í 5. tl. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, enda uppfyllir íþróttagreinin áður nefnd skilyrði þess. Undanþágan nær eingöngu til íþróttafélaga keilara en ekki einstakra meðlima. Þannig þarf að koma fram í bókhaldsgögnum að reikningur sé vegna keppnis- og æfingagjalda keilufélagsins.

Tekið skal fram, að rekstraraðili, sem veitir íþróttafélögum ofan nefnda þjónustu jafnframt því að bjóða hana almenningi, stundar blandaða starfsemi í skilningi 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3.-5. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt. Þannig er heimilt að telja að fullu til innskatts virðisaukaskatt af vörum og þjónustu sem eingöngu er keypt til nota við hinn skattskylda hluta starfseminnar. Að sama skapi er óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum sem eingöngu varða hinn skattfrjálsa hluta starfseminnar. Af þessu leiðir að rekstraraðilar með blandaða starfsemi verða að skipta þeim virðisaukaskatti sem fellur á innkaup í innskatt (frádráttarbæran virðisaukaskatt) og virðisaukaskatt sem ekki er frádráttarbær.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir.