Dagsetning                        Tilvísun
17.janúar 1990                               7/90

 

Virðisaukaskattur vegna sölu á siglinga- og fiskileitartækjum um borð í skip.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 24. nóv. 1989, þar sem óskað er eftir upplýsingum um það hvort innheimta skuli virðisaukaskatt af siglinga- og fiskileitartækjum sem seld eru um borð í íslensk skip.

Samkvæmt 7. tölul. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er viðgerðar- og viðhaldsvinna, sem unnin er við skip og fastan útbúnað þeirra, svo og varahlutir sem notaðir eru í því sambandi, undanþegin skattskyldri veltu. Með föstum útbúnaði er aðallega átt við útbúnað sem er fastur við skip, t.d. fjarskiptabúnaður ( t.d. talstöð, farsími), ratsjá og önnur siglingatæki, en ákvæðið nær einnig til björgunarbáta og annars öryggisbúnaðar. Tekið skal fram að ný tæki sem sett eru í skip falla einnig undir þetta ákvæði. Veiðarfæri, fiskkassar og annað á lausafé telst ekki til fasts útbúnaðar í þessu sambandi.

Í þeim tilvikum þegar fyrirtæki selja eða afhenda varahluti til viðgerðar á skipum en aðrir aðilar annast viðgerðina þá ber að innheimta virðisaukaskatt af varahlutnum.

Samkvæmt framansögðu þá ber ávallt að innheimta virðisaukaskatt af varahlutum í skip nema þegar það fyrirtæki, sem annast viðgerðina, notar og lætur af hendi varahlutinn við viðgerðar eða viðhaldsvinnuna.

Einnig skal það tekið fram að ákvæði 7. tölul. 12. gr. nær ekki til skemmtibáta og því skal ætíð innheimta virðisaukaskatt af viðgerðar- og viðhaldsvinnu, efni og varahlutum sem afhentir eru um borð í skemmtibáta.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir.