Dagsetning                      Tilvísun
17.01.90.                                           8/90

 

Virðisaukaskattur.

Að gefnu tilefni þykir ríkisskattstjóra rétt að koma á framfæri við yður helstu atriðum varðandi virðisaukaskatt af vátryggingastarfsemi og skyldri starfsemi og sendist yður hjálagt minnisatriði þar að lútandi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.

 

  1. janúar 1990

MINNISATRIÐI UM VSK. OG VÁTRYGGINGAR

Eftirfarandi eru helstu atriðin varðandi virðisaukaskatt af vátryggingarstarfsemi og skyldri starfsemi:

I.

Vátryggingarstarfsemi er undanþegin virðisaukaskatti., sbr. 3. mgr. 2. gr. laga 50/1988. Það hefur þau áhrif að virðisaukaskattur leggst ekki á þá þjónustu vátryggingarfélaga sem telst eiginleg vátryggingarstarfsemi.

Undanþágan nær meðal annars til eftirfarandi starfsemi:

a) Sölu á tryggingu í umboðssölu fyrir vátryggingarfélag (tryggingarumboð).

b) Mats og virðingar á tjóni o.þ.h., óháð því hvernig mat og virðing fer fram, þ.e. hvort starfsmenn tryggingarfélaganna sjá um þann lið eða sjálfstæðir verktakar eru fengnir til starfans. Í síðara tilvikinu er litið á þjónustuna sem sambærilega starfsemi vátryggingarfélaganna sjálfra.

Undanþágan nær hins vegar ekki t.d. til greiðslu til lögmanns fyrir mat á því hvort um skaðabótaskyldu er að ræða eða ekki í ákveðnu tilviki.

Vátryggingarfélag getur ekki dregið frá neinn virðisaukaskatt sem það greiðir vegna reksturs og annarra þátta starfsemi sinnar.

II.

Fyrirtæki sem verður fyrir tjóni á birgðum eða rekstrarfjármunum, þ.m.t. fasteignum, getur talið virðisaukaskatt vegna endurnýjunar, viðgerðar o.þ.h. til innskatts eftir almennum reglum um frádrátt virðisaukaskatts í 15. og 16. gr. laga nr. 50/1988. Þetta gildir óháð því hvort það (tjónþolinn) ber tjónið sjálft eða fær það bætt að fullu eða hluta af tjónvaldi eða vátryggingarfélagi.

Af frádráttarheimildinni leiðir að hugsanleg bótafjárhæð miðast við kostnað (enduröflunarverð, viðgerðarkostnað) án virðisaukaskatts. Hafi tjónþoli aðeins frádráttarrétt að hluta (sbr. reglug. um frádrátt virðisaukaskatts) bætist sá virðisaukaskattur sem hann getur ekki talið til innskatts við áðurgreinda fjárhæð.

Þegar tjónþoli er óskráður aðili (einstaklingur ekki í rekstri eða aðili undanþeginn skattskyldu skv. 4. gr. laga nr. 50/1988} miðast sú fjárhæð sem vátryggingarfélag eða tjónþoli kann að greiða í bætur við kostnað {t.d. enduröflunarverð með virðisaukaskatti. Sama gildir þegar skráð fyrirtæki (tjónþoli) hefur ekki frádráttarrétt vegna tjónamunar {t.d. ef um er að ræða fólksbifreið fyrir færri en níu menn).

Skráður aðili (tjónvaldur) sem greiðir skaðabætur að meðtöldum virðisaukaskatti getur ekki talið þá skattfjárhæð til innskatts.

Valdi skráður aðili tjóni á hlut sem hann hefur í vörslum sínum til viðgerðar getur hann þó talið virðisaukaskatt af kostnaði við viðgerð á hlutnum til innskatts. Í þessu tilviki fær tjónþoli hins vegar ekki innskattsfrádrátt.

III.

Láti tryggingarfélag gera við tjónamun greiðir það virðisaukaskatt af viðgerðinni og fær hann ekki frádreginn, sbr. lið I. Sé tryggingartaki (tjónþoli) skráður aðili getur hann hins vegar talið þennan skatt til innskatts hjá sér að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

–     Vátryggingarfélagið afhendi tjónþola frumrit kvittaðs reiknings fyrir viðgerðinni.

–     Á reikningi viðgerðaraðila komi fram að viðgerðin sé vegna eignar tryggingartaka, þ.e. fram skal koma lýsing þeirrar eignar sem viðgerð varðar og hver sé eigandi.

Eigi tryggingartaki {tjónþoli} að greiða viðgerð að hluta vegna sjálfsábyrgðar sinnar (t.d. kaskótrygging bifreiða) er sjálfsábyrgðin ýmist innheimt af verkstæði eða vátryggingarfélagi. Í báðum tilvikum skal verkstæði senda vátryggingarfélaginu reikning með virðisaukaskatti af heildarfjárhæð viðgerðarinnar. Þegar verkstæðið innheimtir sjálfsábyrgð beint af tryggingartaka skal innheimt fjárhæð vera án virðisaukaskatts, en á kvittun skal vera tilvísun í reikning til tryggingarfélagsins. Á reikningi til vátryggingarfélagsins skal getið um fjárhæð innheimtrar sjálfsábyrgðar.

IV.

Afhending tjónamunar til vátryggingarfélags, sem bætir hann að fullu, telst ekki til skattskyldrar veltu tjónþola (skráðs aðila).

Sala vátryggingarfélags á tjónamunum, sem það hefur yfirtekið í tengslum við greiðslu skaðabóta, er skattskyld vörusala. Ekki skiptir máli hvort um er að ræða sölu tjónamuna frá skráðum eða óskráðum aðilum. Um skattheimtuna fer eftir almennum reglum laga nr 50/1988; þ.e.a.s. virðisaukaskattur leggst á heildarsöluverð og tryggingarfélagið fær virðisaukaskatt sem það greiðir vegna beins kostnaðar við söluna, t.d. vegna viðgerða á hlutnum og auglýsinga, frádreginn sem innskatt. Annar virðisaukaskattur, sem kann að stafa að yfirtöku tjónamunar, t.d. vegna aðkeyptrar lögfræðiþjónustu, er ekki frádráttarbær þar sem hann telst eingöngu varða hinn skattfrjálsa þátt starfseminnar, þ.e. vátryggingarstarfsemina.

Við sölu notaðra fólksbifreiða fyrir færri en níu menn – þó ekki ef um er að ræða bifreiðar sem notaðar hafa verið í bílaleigustarfsemi – má ákveða skattverð samkvæmt ákvæðum 10. gr. laganna. Þegar um tjónabíla er að ræða miðast kaupverð í skilningi ákvæðisins við áætlað verðmæti bifreiðarinnar í tjónaástandinu. Tekið skal fram að sé söluverð einhverrar bifreiðar lægra en kaupverð reiknast enginn skattur á sölu hennar.