Dagsetning                       Tilvísun
25. júní 1993                            488/93

 

Endurgreiðsla sérfræðikostnaðar

Vísað er til bréfs yðar, dags. 24. mars 1993, þar sem óskað er eftir svari ríkisskattstjóra á eftirfarandi spurningum:

a) Ef kaupstaður myndi kaupa fasteign undir eitthvað af rekstri sínum (sem er ekki skattskyldur) með kaupsamningi, þar sem bærinn keypti eitt hús fyrir ákveðna upphæð af verktaka, fæst þá virðisaukaskattur af ráðgjafaþjónustu, t.d. verkfræði og arkitektavinnu, endurgreiddur á grundvelli yfirlýsingar verktaka um hve mikill umræddur þáttur er í verði fasteignar?

b) Er hægt að fá virðisaukaskatt endurgreiddan í sambærilegu tilfelli og í spurningu a) ef verktaki lætur senda bænum reikninga beint?

Svar: Samkvæmt 5. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af starfsemi opinberra aðila, skal endurgreiða sveitarfélögum og ríkisstofnunum þann virðisaukaskatt sem þau greiða við kaup á þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu. Ríkisskattstjóri lítur svo á, að ekki sé hægt að fá endurgreiðslu vegna sérfræðiþjónustu, ef þjónustan er veitt sem óaðskiljanlegur hluti af stærri heild, þar sem innifalinn er allur kostnaður hvort sem hann stafar frá sérfræðingum eða öðrum. Sérfræðiþjónustan telst þá til aðfanga seljanda en ekki viðkomandi sveitarfélags eða ríkisstofnunar. Svarið við ofangreindum spurningum er því neitandi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson.