Dagsetning Tilvísun
25. júní 1993 489/93
Fjarskiptabúnaður vegna lagningu ljósleiðara
Vísað er til bréfs yðar, dags. l. apríl 1993, þar sem óskað er eftir úrskurði ríkisskattstjóra á túlkun Póst- og símamálastofnunarinnar á meðferð virðisaukaskatts, tolla og aðflutningsgjalda vegna innflutnings á fjarskiptabúnaði tengdum framkvæmdinni C 3. Hér verður svarað þeim hluta fyrirspurnar er snýr að virðisaukaskatti, þar sem aðflutningsgjöld heyra undir tollstjóra.
Í bréfi yðar kemur fram, að C 3 er ljósleiðarastrengur sem á að leggja á milli K og E. Strengurinn á að taka land á Íslandi (V), F, E, D og Þ. Vegna landtökunnar í V þarf Póst- og símamálastofnunin (P&s) að flytja inn fjarskiptabúnað og kaupa þjónustu frá framleiðanda strengsins, S í E, sem einnig mun annast lagningu milli stranda landtökulandanna. Þessi búnaður er nauðsynlegur hluti af verkefninu til þess að tengja strenginn við almenna símakerfið í V og mun uppsetning hans vera á vegum P&s. Greiðsla til S fer fram skv. samningi og tekur mið af framvindu verksins í heild en fer ekki fram við móttöku búnaðar, þ.e. við tollafgreiðslu. Innflutningur á þessum búnaði til Íslands verður í nafni P&s. Við tollaafgreiðslu ákvarðast hvaða virðisaukaskatt og aðflutningsgjöld P&s á að greiða. Skv. bréfi yðar er skilningur P&s á meðferð virðisaukaskatts eftirfarandi:
„Við tollafgreiðslu ber P&s að greiða virðisaukaskatt af þeim búnaði sem tengist þessu verkefni hverju sinni, en fær hann síðan viðurkenndan sem innskatt á grundvelli þess að um fjarskiptabúnað sé að ræða á vegum P&s“.
P&s er ríkisstofnun og á rétt á innskatti af aðföngum sem varða eingöngu sölu á virðisaukaskattsskyldum vörum og þjónustu. Ríkisskattstjóri fellst því á þá skoðun P&s að stofnunin fái virðisaukaskatt af fjarskiptabúnaði vegna ljósleiðara færðan sem innskatt.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattsjóra,
Bjarnfreður Ólafsson.