Dagsetning Tilvísun
15. júlí 1993 498/93
Frjáls skráning vegna gistiþjónustu
Vísað er til bréfs yðar, dags. 18. maí 1993, þar sem óskað er eftir túlkun ríkisskattstjóra á reglugerð nr. 487/l992, um frjálsa skráningu vegna útleigu hótel- og gistiherbergja.
Í bréfi yðar kemur fram, að þér séuð að kaupa þrjú sumarhús til útleigu og reiknið með að auka þann rekstur og leigja sumarhúsin bæði sem herbergi og í heilu lagi. Þá kemur fram að þér óskið eftir skriflegu svari ríkisskattstjóra varðandi þá spurningu, hvort útleiga þessara sumarhúsa falli undir ákvæði reglugerðar nr. 487/1992.
Til svars bréfi yðar skal tekið fram, að skv. 2. tl. 2. mgr., 14. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, sbr. 50. gr., sbr. 62. gr. laga nr. 111/l992, um breytingar í skattamálum, þá kemur útleiga hótel- og gistiherbergja og önnur gistiþjónusta til með að bera 14% virðisaukaskatt frá og með 1. janúar 1994.
Samkvæmt l. gr. reglugerðar nr. 487/1992, um frjálsa skráningu vegna útleigu hótel- og gistiherbergja, sbr. ákvæði til bráðabirgða með lögum nr. 111/1992, um breytingar í skattamálum, getur aðili sem í atvinnuskyni leigir út hótel- og gistiherbergi sótt um frjálsa skráningu til skattstjóra.
Þeir sem hafa heimild til frjálsrar skráningar geta nýtt sér frádrátt innskatts eftir almennum reglum, en verða jafnframt að innheimta útskatt af sölu og þjónustu. Því er grundvallarskilyrði að þeir sem fara fram á heimild til frjálsrar skráningar uppfylli skilyrði reglugerðar nr. 192/l993, um innskatt. Í þessu sambandi má benda á 2. og 4. tl. l. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar, en þar segir:
„Eigi er heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum er varða eftirfarandi:
- Öflun eða rekstur íbúðarhúsnæðis fyrir eiganda og starfsmenn. Skiptir ekki máli í þessu sambandi þótt aðili noti húsnæðið einnig vegna atvinnu sinnar. Til íbúðarhúsnæðis teljast einnig geymsluherbergi og bifreiðageymsla sem byggð er í venjulegum tengslum við íbúð.
- Öflun og rekstur orlofsheimila, sumarbústaða, barnaheimila og þess háttar fyrir eiganda eða starfsmenn“.
Þannig er eigi kleyft að fá heimild til frjálsrar skráningar, ef aðili selur gistiþjónustu í húsi sem jafnframt er notað til varanlegrar íbúðar eða hann rekur orlofshús og sumarbústaði. Með rekstri orlofshúsa og sumarbústaða er hér átt við þá rekstraraðila, sem nota slík hús til einkaþarfa og ekki í hagnaðarskyni, s.s. einstaklinga, fyrirtæki og félagasamtök (t.d. stéttarfélög).
Ríkisskattstjóri lítur svo á, að þar sem rekstur yðar verður í sérstökum húsum eingöngu til gistiþjónustu í hagnaðarskyni, þá geti rekstur yðar uppfyllt almenn skilyrði reglugerðar nr. 487/1992, um frjálsa skráningu vegna útleigu hótel- og gistiherbergja, en það er skilyrði að um aðstöðuleigu sé að ræða, en ekki fasteignaleigu, þannig að viðskiptamönnum verði ekki látin í té nein umráð yfir húsnæði, sem jafnað verði við almenn réttindi leigutaka að fasteign. Samkvæmt á.n. ákvæði til bráðabirgða með lögum um breytingar í skattamálum og reglugerðinni um frjálsa skráningu er einungis hægt að sækja um frjálsa skráningu vegna útleigu hótel- og gistiherbergja, en ekki vegna útleigu einstakra húsa eða annarrar gistiþjónustu.
Að lokum skal það tekið fram að það er skattstjóri í hverju umdæmi sem metur hvort skilyrði fyrir frjálsri skráningu eru uppfyllt eða ekki.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson.