Dagsetning Tilvísun
20. júlí 1993 502/93
Tekjuskráning blaða, tímarita o.fl.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 16. júlí 1993, þar sem óskað er eftir svörum ríkisskattstjóra við spurningum varðandi gildistöku 14% virðisaukaskatts á bækur, blöð og tímarit þann 1. júlí s.l.
Til svars bréfi yðar skal tekið fram að útgáfa bóka, tímarita, dagblaða, landsmálablaða og annarra rita er skráningarskyld starfsemi ef útgáfan er talin vera í atvinnuskyni. Þó er starfsemi ekki skráningarskyld ef samanlagðar tekjur útgefanda af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu, þ.m.t. tekjur af auglýsingum og sölu ritsins, eru lægri en 185.200 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1993). Það fer svo eftir eðli prentvarnings hvort hann ber 14% eða 24,5% virðisaukaskatt.
1. Iðntæknistofnun gefur út og selur ýmis konar staðla í áskrift og utan áskriftar. Spurt er hvort þetta flokkist undir sérfræðiþjónustu með 24,5% virðisaukaskatti eða sem tímarit með 14% virðisaukaskatti.
Hugtakið „tímarit“ í skilningi 5. tl. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er hvers konar útgáfa rita, að jafnaði með efni eftir fleiri en einn höfund, önnur en útgáfa dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða, sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:
a. Kemur út reglulega og a.m.k. tvisvar á ári. Ríkisskattstjóri getur þó í einstökum tilvikum samþykkt frávik frá þessu skilyrði.
b. Útgáfan er liður í ótímabundinni röð, þ.e. gert er ráð fyrir útgáfu um ófyrirsjáanlega framtíð.
c. Einstök hefti bera sama heiti og eru númeruð.
d. Útgáfan er seld á fyrirfram ákveðnu verði eða dreift til félagsmanna gegn greiðslu félagsgjalds.
Eftirtalinn prentvarningur er hvorki talinn vera tímarit eða bók í skilningi 14. gr. virðisaukaskattslaga og skulu þeir sem í atvinnuskyni selja eða afhenda slíka vöru innheimta og skila 24,5% virðisaukaskatti af andvirði hennar:
a. Rit til útfyllingar, innsetningar, límingar, heftunar eða til að rífa af eða úr. Má nefna sem dæmi eyðublöð, litabækur, stílabækur og reiknings-hefti.
b. Smáprent, svo sem auglýsinga- og kynningarbæklingar, fréttabréf, dreifibréf og aðrir slíkir bæklingar.
c. Leikskrár og sýningarskrár.
d. Almanök, dagbækur og önnur regluleg útgáfa rita sem hafa að geyma dagatöl, nema þegar dagatal er minni hluti víðtækrar handbókar en þá er um 14% virðisaukaskatt að ræða.
e. Uppdrættir og kort, einnig í bókarformi. Þó tekur lægri prósentan (14%) til atlasa sem hafa að geyma tematískar upplýsingar auk korta.
f. Rit, sem að meginefni eru skrár eða listar en ekki samfelldur texti, svo sem símaskrár, heimilisfangaskrár, fyrirtækjaskrár, vinningaskrár, verð-skrár, leiðabækur um áætlunarferðir, skrár yfir sýningarhluti, fasteignir, rekstrarfjármuni, vörubirgðir og annað lausafé.
g. Námsvísar og kennsluáætlanir skóla.
h. Sérútgáfur laga og reglna, svo og staðlar, leiðbeiningar og tilkynningar frá opinberum aðilum. Lægri prósentan tekur þó til samstæðna tveggja eða fleiri slíkra rita sem bundin eru saman í eitt hefti.
Samkvæmt framansögðu bera staðlar Iðntæknistofnunar 24,5% virðisaukaskatt.
2. Iðntæknistofnun gefur út og selur bækur með ýmiss konar upplýsingum. Spurt er hvort þær beri 14% eða 24,5% virðisaukaskatt.
Þar sem bókum þessum er eigi nánar lýst í bréfi yðar þá er vísað til framan-skráðra leiðbeiningarreglna.
3. Iðntæknistofnun gefur út og selur ýmiss konar upplýsingar í formi ljósrita og fjölrita. Spurt er hvort þetta beri 14% eða 24,5% virðisaukaskatt.
Þar sem lið þessum er eigi nánar lýst í bréfi yðar þá er vísað til framanskráðra leiðbeiningarreglna.
4-5. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins gefur út og selur í áskrift svo kölluð RB-blöð. Hér er um að ræða blöð, sem áskrifendur setja inn í möppur sem þeir eiga frá stofnuninni. Þetta eru upplýsingar um hvers konar byggingarefni, t.d. flísar, lím o.fl. Einnig gefur stofnunin út og selur í áskrift ýmiss konar vísitölur, sem að einhverju leyti eru notaðar til grundvallar við útreikning byggingar-vísitölu. Hér er um að ræða staðlaðar upplýsingar, t.d. hve margir naglar fara í hvert einbýlishús o.s.frv. Spurt er hvort þessi starfsemi beri 14% eða 24,5% virðisaukaskatt.
Samkvæmt framanskráðu ber þessi starfsemi Rannsóknarstofnunar byggingar-iðnaðarins 24,5% virðisaukaskatt.
6. Skrifstofa Rannsóknastofnana atvinnuveganna skrifar út reikninga fyrir áður nefndar stofnanir. Skrifstofan hefur innheimt sendingargjald af áskrifendum vegna frímerkja, en þau bera ekki virðisaukaskatt. Spurt er hvort heimilt sé að hafa virðisaukaskattsfrjálsa vöru, þ.e. frímerkin, á sama reikningi og virðisauka-skattsskylda varan.
Samkvæmt 4. mgr. 20. gr. virðisaukaskattslaga nr. 50/1988, sbr. b-lið 52. gr. laga nr. 111/1992, er heimilt að hafa skattskylda og undanþegna sölu á sama reikningi, en það ber að halda viðskiptum, sem eru skattskyld, greinilega aðgreindum á reikningi frá öðrum viðskiptum. Ef um mismunandi skatt-prósentur er að ræða, þá skal jafnframt á reikningi aðgreina skattskylda sölu eftir skatthlutföllum, þannig að heildarverð vöru og þjónustu ásamt virðisauka-skatti komi sérstaklega fram vegna hvors skatthlutfalls.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson.