Dagsetning Tilvísun
26. júlí 1993 505/93
Útgáfustarfsemi félagasamtaka
Vísað er til bréfs yðar, dags. 22. júlí 1993, vegna fyrirspurnar um virðisaukaskatt af útgáfu afmælisrits F.
Í bréfi yðar kemur fram að afmælisritið eigi ekki að skila hagnaði, heldur eigi það einungis að standa undir sér með sölu á afmæliskveðjum og auglýsingum. Þá kemur fram að F muni ekki skila virðisaukaskatti af seldum auglýsingum og þegnum styrkjum.
Til svars bréfi yðar skal tekið fram að útgáfa bóka, tímarita, dagblaða, landsmálablaða og annarra rita er skráningarskyld starfsemi ef útgáfan er talin vera í atvinnustarfsemi. Þó er starfsemi ekki skráningarskyld ef samanlagðar tekjur útgefanda af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu, þ.m.t. tekjur af auglýsingum og sölu rits, eru lægri en 185.200 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1993).
Útgáfustarfsemi félagasamtaka, svo sem hagsmunasamtaka, íþróttafélaga, nemenda-félaga og stjórnmálaflokka, má skipta í þrennt:
a. Varanleg og regluleg útgáfa. Sé útgáfa blaðs eða tímarits varanleg og regluleg yfir lengra tímabil fer um skráningarskyldu eins og áður segir. Útgefandi er þannig skráningarskyldur ef hagnaður er af útgáfunni, þ.e. þegar tekjur af sölu og auglýsingum eru almennt hærri en kostnaður við útgáfu, enda nemi tekjur a.m.k. 185.200 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1993).
Ef sölutekjur og tekjur af auglýsingum eru lægri en útgáfukostnaður, sem keyptur er með virðisaukaskatti, er útgáfan ekki skráningarskyld. Þó þarf að taka tillit til aðstæðna í einstökum tilvikum, einkum þegar ritum er dreift til félagsmanna gegn greiðslu félagsgjalds, en án sérstaks endurgjalds að öðru leyti. Skráningarskylda er þá talin vera fyrir hendi þegar ljóst er að um markaðsvöru er að ræða. Útgáfustarfsemin er hins vegar undanþegin skráningarskyldu þegar tilgangur útgáfunar er fyrst og fremst að fullnægja innri þörf félagsins (fréttir af félagsstarfi o.s.frv.).
Við mat þess hvort tiltekin útgáfa sé „markaðsvara“ má hafa þessi atriði til viðmiðunar:
* Hafa atvinnufyrirtæki sambærilega útgáfustarfsemi með höndum – bæði hvað varðar efni og framsetningu efnis?
* Eru aðrir en félagsmenn einnig áskrifendur að ritinu eða – ef félagið er opið almenningi – er líklegt að menn gangi í félagið gagngert í því skyni að fá áskrift að ritinu?
* Er útgáfustarfsemin umfangsmikill þáttur í heildarstarfsemi félagsins?
Ef svara má þessum spurningum játandi bendir það til þess að útgefandi sé skráningarskyldur þótt tekjur af útgáfunni séu lægri en gjöld.
b. Útgáfa auglýsinga- og fjáröflunarblaða er skráningarskyld starfsemi. Hér er átt við blöð sem gefin eru út í fjáröflunarskyni, hafa auglýsingar að meginefni og dreift er án endurgjalds út fyrir raðir félagsmanna.
c. Tilfallandi útgáfustarfsemi félagasamtaka, svo sem blaðaútgáfa stjórnmála-flokka fyrir kosningar, útgáfa afmælisrita eða skólablaða sem ekki falla undir a- eða b-lið, telst ekki vera í atvinnuskyni í skilningi laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Útgáfustarfsemi sem fellur í þennan flokk er því undanþegin skráningarskyldu – óháð afkomu.
Samkvæmt fengnum upplýsingum virðist útgáfustarfsemi yðar flokkast undir c-lið hér að framan og því undanþegin virðisaukaskatti.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson.