Dagsetning                       Tilvísun
27. júlí 1993                            506/93

 

Virðisaukaskattur af bifreiðum

Vísað er til bréfs yðar, dags. 2. júlí 1993, varðandi meðferð virðisaukaskatts á bifreiðum.

1. Í bréfi yðar koma fyrst fram fjórar spurningar varðandi símakostnað:
a. Geta sendibifreiðastjórar nýtt sér virðisaukaskatt af bílasímum sem innskatt við innkaup?
b. Hvað um virðisaukaskatt af rekstri símans?
c. Getur t.d. verslunarfyrirtæki nýtt sér virðisaukaskatt af venjulegu símtæki sem innskatt við innkaup?
d. Hvað um virðisaukaskatt af rekstri símans hjá því verslunarfyrirtæki?

Svar:   Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal telja til innskatts á hverju uppgjörstímabili virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu.

Ríkisskattstjóri hefur litið svo á að kostnaður vegna bílasíma teljist ekki vera nauðsynlegur þáttur í rekstri bifreiðar. Hins vegar geta skráðir aðilar (þ.m.t. sendibifreiðastjórar) notið innskattsfrádráttar að fullu vegna öflunar og rekstrar bílasíma eftir almennu reglunni um frádrátt vegna rekstrarkostnaðar fyrirtækis, enda sé tækið eingöngu notað í þágu rekstrarins.

Verslunarfyrirtæki geta nýtt sér innskatt af öflun og rekstri síma ef skilyrði 1. mgr. 16. gr. virðisaukaskattslaga eru uppfyllt.

2. Einnig spyrjið þér hvort söluskattsbílar hafi frest til 1. október 1993 til að fara á rauð númer og jafnframt biðjið þér um skýringu á muninum á meðferð söluskatts-bifreiðar og fólksbifreiðar sem breytt er í virðisaukabifreið.

Svar:   Söluskattsbílar áttu að vera komnir á rauð númer þann 1. júlí s.l., sbr. ákvæði III til bráðabirgða með lögum nr. 111/1992, um breytingar á skattalögum.

Hinn skattalegi munur á bifreið sem keypt var í tíð söluskattslaga og fólksbifreið sem breytt er í virðisaukabifreið felst í ákvæðum laga og reglna, en ekki er í þessu sambandi um mikinn eðlismun að ræða milli þessara bifreiða.

3. Þá er spurt hvort sendibifreiðastjóri geti selt sjálfum sér sendibílaþjónustu og með hvaða skilyrðum.

Svar:   Leiguakstur vörubifreiða og sendibifreiða er skilgreindur í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 121/1990, um vörubifreiðar og sendibifreiðar, en þar kemur fram að slík bifreið skal seld á leigu ásamt ökumanni til flutnings á vörum fyrir tiltekið gjald, þar sem ökumaður og eigandi bifreiðarinnar er hvorki eigandi, seljandi, né kaupandi vörunnar sem flutt er. Sendibifreiðarstjóra er því óheimilt að selja sjálfum sér sendibifreiðaþjónustu.

4. Að lokum leggið þér fram tvær spurningar:
a. Um er að ræða bifreið sem keypt var í tíð söluskattslaga á 2.100.000 kr. og hefur verið rekin 100% í virðisaukaskattsskyldri starfsemi eftir að lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, komu til framkvæmda. Nú vill eigandi breyta um notkun og nota hana að hluta til einkanota, hvað gerist þá, hvernig ber hann sig að?
b. Sama dæmi, nema bifreiðin var keypt í tíð virðisaukaskattslaga.

Svar:   Ef notkun söluskattsbifreiðar er breytt úr fullum virðisaukaskattsskyldum notum yfir í blönduð not, þá skal skatthlutfalli skipt upp fyrirfram í samráði við skattstjóra. Þannig skal á fyrsta ári reiknuð hlutfallstalan til bráðabirgða fyrir hvert einstakt uppgjörstímabil, en endanlegt uppgjör fer fram við skil vegna síðasta tímabils ársins, sbr. 2. mgr. 5. gr. i.f. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Ekki kemur til greiðslu leiðréttingarfjárhæðar af hálfu gjaldanda, þar sem söluskattsbifreið naut ekki innskattsfrádráttar við öflun.

Hvað varðar breytta notkun á virðisaukabifreið er það sama að segja, nema gjaldanda ber að greiða leiðréttingarfjárhæð vegna áður fengins frádráttar vegna öflunar. Verði þannig breyting á forsendum innskattsfrádráttar á næstu fimm árum, talið frá og með þeim mánuði þegar bifreiðar er aflað, ber að leiðrétta áður frádreginn innskatt. Ef notkun breytist í sama mánuði og frádráttur innskatts fer fram, þá nær leiðréttingar-skyldan til allrar þeirrar fjárhæðar sem dregin hefur verið frá sem innskattur. Breytist notkun síðar skal framreikna frádreginn innskatt samkvæmt byggingarvísitölu og þannig framreiknaðan innskatt skal leiðrétta um 20% fyrir hvert ár sem eftir er af leiðréttingartímanum. Fyrir hvert tímabil sem er skemmra en eitt ár (12 mánuðir) er leiðréttingarskyldan 1,67% á mánuði.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson