Dagsetning Tilvísun
28. júlí 1993 507/93
Einkanot virðisaukabifreiða
Vísað er til bréfs yðar, dags. 6. júlí 1993, til skattstofu norðurlandsumdæmis eystra, sem framvísað var til ríkisskattstjóra og móttekið hjá embættinu þann 14. júlí 1993, þar sem óskað er upplýsinga um reglur virðisaukaskattslaga varðandi einkanot virðisauka-bifreiða.
Í bréfi yðar kemur fram að fjórar bifreiðar eru komnar á rauð númer, þ.e. tvær hjá L og tvær hjá K og þær eru m.a. notaðar til að sækja starfsfólk í vinnu og aka því heim að starfsdegi loknum. Vinna er talin hefjast kl. 7 að morgni þegar starfsfólk er sótt til vinnu á heimili sitt, sem yfirleitt er jafnframt eign vinnuveitanda. Bifreið stendur síðan yfir nótt eða helgi fyrir utan hús vinnuveitanda, sem er jafnframt heimili starfsmanns.
Til svars bréfi yðar skal tekið fram, að skv. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, er einungis heimilt að nota virðisaukabifreiðar í starfsemi eiganda sem er virðisaukaskattsskyld. Skýrt er tekið fram í 3. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar að ökutæki skal ekki talið notað eingöngu vegna sölu á vörum eða skattskyldri þjónustu ef það er notað af eiganda þess eða starfsmanni hans til einkanota þ.m.t. til aksturs milli heimilis og vinnustaðar. Reglan er því skýr og afdráttarlaus, þannig að akstur á milli heimilis og vinnustaðar verður ávallt talinn til einkanota. En það skal tekið fram, að þrátt fyrir framangreint er heimilt að geyma bifreið við heimahús viðkomandi eiganda ef hann hefur ekki fasta starfstöð annars staðar.
Samkvæmt ofan skráðu er yður eigi heimilt að nota bifreiðar á rauðum skráningar-merkjum til aksturs milli vinnustaðar og heimilis starfsmanna, og skiptir þá engu máli hver á fasteign þá er starfsmaður dvelur í, enda búi starfsmaður eigi á vinnustað. Klukkan hvað starfsdagur er talinn hefjast skiptir eigi máli í þessu sambandi.
Einnig kemur fram í bréfi yðar, að þér hafið sent starfsmann á virðisaukabifreið til A með vélahluti til sandblásturs og sinkhúðunar. Starfsmaður hafi þurft að gista nótt á A, enda voru vélarhlutirnir unnir að kvöldi og afgreiddir að morgni. Starfsmaður hafi þá ekið heim til konu sinnar, enda búsettur á A, og sofið þar. Spurt er hvort hér sé um einkanot að ræða.
Heimilt er að sinna einkaerindum ef þau að fullu samrýmast starfserindum. Í dæmi yðar yrði eigi talið að um misnotkun bifreiðar væri að ræða, enda sýnt að ferðin teldist ekki til dulina einkanota.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Bjarnfreður Ólafsson.