Dagsetning                       Tilvísun
30. júlí 1993                            509/93

 

Einkanot virðisaukabifreiða

Vísað er til bréfs yðar, dags. 20. júlí 1993, þar sem óskað er upplýsinga ríkisskattstjóra um reglur virðisaukaskattslaga varðandi einkanot virðisaukabifreiða.

Í bréfi yðar kemur fram, að fyrirtækið á fimm bifreiðar, þar af eru tvær þeirra ávallt geymdar að vinnudegi loknum við starfstöð fyrirtækisins að L. Aðrar tvær bifreiðar eru notaðar af starfsmönnum er vinna við uppsetningar og þjónustu á lyftum, og teljið þér bifreiðarnar vera starfstöðvar starfsmanna, enda eru þeir á vakt allan sólarhringinn. Fimmta bifreiðin er notuð í tvennum tilgangi, þ.e. fyrir sölumenn fyrirtækisins, sem einstöku sinnum hafa farið heim á umræddri bifreið þegar fyrirhugað er að fara í söluferð snemma að morgni. Einnig hefur bifreiðin verið geymd við heimili starfsmanns sem séð hefur um að þjóna bjórkrám, þar sem fyrirtækið sér um uppsetningu og þjónustu á ölpumpum. Þá kemur fram í bréfi yðar, að fyrirtækið hafi gert samninga við starfsmenn fyrirtækisins um að þeir noti bifreiðarnar ekki í eigin þágu, og spurt er hvort þér séuð að gera rétta hluti eða hvort þér þurfið að breyta fyrirkomulagi yðar og þá hvernig.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram, að skv. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, er einungis heimilt að nota virðisaukabifreiðar í starfsemi eiganda sem er virðisaukaskattsskyld. Skýrt er tekið fram í 3. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar að ökutæki skal ekki talið notað eingöngu vegna sölu á vörum eða skattskyldri þjónustu ef það er notað af eiganda þess eða starfsmanni hans til einkanota þ.m.t. til aksturs milli heimilis og vinnustaðar. Reglan er því skýr og afdráttarlaus, þannig að akstur á milli heimilis og vinnustaðar verður ávallt talinn til einkanota. En það skal tekið fram, að þrátt fyrir framangreint er heimilt að geyma bifreið við heimahús viðkomandi eiganda ef hann hefur ekki fasta starfsstöð annars staðar.

Jafnvel þótt notendur bifreiða á rauðhvítum skráningarmerkjum geti sýnt fram á að þeir hafi verið á bakvakt þegar bifreið stóð við heimahús er slík ástæða ekki fullnægjandi og myndi það valda því að bakfærður yrði allur innskattur af öflun og hluti innskatts af rekstri.

Samkvæmt ofanskráðu er yður eigi heimilt að nota bifreiðar á rauðum skráningar-merkjum til aksturs milli vinnustaðar og heimilis starfsmanna. Samningar við starfs-menn yðar um að nota bifreiðarnar eigi til einkanota umfram akstur á milli heimilis og vinnustaðar breytir litlu í þessu sambandi, þar sem einkanotin hafa þegar átt sér stað. Alls ekki er hægt að líta á bifreið fyrirtækis sem starfsstöð þess. Að lokum skal yður bent á þann möguleika, að leiðrétta áður fenginn innskatt af öflun virðisaukabifreiðar og taka hana í blönduð not.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Bjarnfreður Ólafsson