Dagsetning                       Tilvísun
30. júlí 1993                            510/93

 

Virðisaukaskattur af bifreiðum

Vísað er til bréfs yðar, dags. 3. mars 1993, þar sem óskað er upplýsinga um reglur virðisaukaskattslaga varðandi meðferð virðisaukabifreiða.

Í bréfi yðar koma fram eftirfarandi spurningar:

1. Lögaðili er með virðisaukabifreið og felur einum starfsmanni sínum að aka bifreið sinni heim til sín að loknum vinnudegi, þar sem mikið er um skemmdarverk og þjófnaði við vinnustað. Spurt er hvort þetta hafi áhrif á endurgreiðslur á innskatti vegna öflunar og reksturs bifreiðarinnar, – ef nauðsynlegt er að reikna starfsmanni einkanot er þá hægt að færa þau á meðalkostnað fyrir hver ekinn kílómeter og útskatta, – gilda aðrar reglur ef sjálfstæður atvinnurekandi ekur bílnum milli heimilis og vinnustaðar og er einhver önnur meðhöndlun á innskatti hjá honum en hjá lögaðilanum.

Svar: Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, er einungis heimilt að nota virðisaukabifreiðar í starfsemi eiganda sem er virðisaukaskattsskyld. Skýrt er tekið fram í 3. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar að ökutæki skal ekki talið notað eingöngu vegna sölu á vörum eða skattskyldri þjónustu ef það er notað af eiganda þess eða starfsmanni hans til einkanota þ.m.t. til aksturs milli heimilis og vinnustaðar. Reglan er því skýr og afdráttarlaus, þannig að akstur á milli heimilis og vinnustaðar verður ávallt talinn til einkanota. Slík misnotkun bifreiðar á rauðhvítum skráningarmerkjum leiðir að öllu jöfnu til þess að innskattur af öflun og rekstri bifreiðar verður bakfærður. Það skal tekið fram, að þrátt fyrir framangreint er heimilt að geyma bifreið við heimahús viðkomandi eiganda ef hann hefur ekki fasta starfstöð annars staðar. Ekki er hægt að leigja út virðisaukabifreið, nema leigutaki sé í virðisaukaskatts-skyldri starfsemi og noti hana einungis við sölu á skattskyldri vöru og þjónustu.

2.Lögaðili, sem rekur byggingarstarfsemi, er með skráð heimili á heimili starfs-manns félagsins. Lögaðilinn rekur virðisaukabifreið, sem starfsmaður fer á til byggingarstaða á hverjum tíma. Spurt er hvort hér sé um einkanot að ræða, og hvernig fari ef um heimili eiganda sé að ræða.

Svar: Ef viðkomandi heimili eiganda eða starfsmanns er jafnframt eina starfsstöð atvinnufyrirtækis, þá getur eigandi eða starfsmaður geymt bifreið við heimili sitt, án þess að um misnotkun á virðisaukabifreið sé að ræða.

3. Hvaða reglur gilda um þann kostnað af virðisaukabifreið, sem telst kostnaður vegna einkanota þegar um blönduð not er að ræða. Spurt er hvort hann færist sem sérstakur kostnaður á rekstrarreikningi, hlunnindi greidd starfsmanni sem þá þarf að færa sér þau til tekna á framtali, eða hvort hann færist á höfuðstól sem kostnaður er ekki gjaldfærist á rekstri.

Spurning þessi er þríþætt:

A. Rekstrarkostnaður virðisaukabifreiðar sem stafar af einkanotum.

Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, má telja virðisaukaskatt af innkaupum sem bæði eru vegna rekstrar skattaðila og vegna einkanota eða annarra nota sem ekki varða reksturinn, til innskatts að því leyti sem þau teljast varða virðisaukaskattsskyldan rekstur. Skipting milli skattskylds reksturs og einkanota skal gerð í samráði við skattstjóra.

Samkvæmt 25. gr. reglugerðar nr. 50/1988, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, á að færa þann hluta innskatts sem heimilt er að telja til frádráttar við uppgjör á virðisaukaskatti á sérstakan innskattsreikning. Skv. 26. gr. sömu reglugerðar skal að jafnaði færa skattfjárhæðir á innskattsreikning samtímis færslum á viðkomandi gjaldareikning, og alltaf skal skipta gjöldum og skattfjárhæð strax við bókfærsluna ef aðeins er heimilt að reikna skatt af innkaupum að hluta til innskatts skattaðila.

Þannig ber að færa þann hluta virðisaukaskatts sem stafar af innkaupum vegna rekstrarnota umræddrar bifreiðar á innskattsreikning, en kostnaðinn að öðru leyti á viðkomandi gjaldareikning, þ.m.t. þann hluta virðisaukaskatts sem stafar af innkaupum vegna einkanota. Þessi skipting þarf að fara fram um leið og bókfærslan á sér stað. Rekstrarkostnaðurinn kemur síðan allur fram í rekstrarreikningi en tekjuskattsstofn leiðréttur sem nemur kostnaði vegna einkanota.

B. Hlunnindi til starfsmanna.

Bifreiðahlunnindi skal reikna ef starfsmaður fær full eða takmörkuð afnot af fólksbifreið, skutbifreið eða jeppa. Sé um að ræða full umráð bifreiðar eru hlunnindin reiknuð sem hlutfall af kostnaðarverði bifreiða sem fram kemur í bifreiðaskrá sem Ríkisskattstjóraembættið gerir árlega, en takmörkuð afnot skal meta á gildandi kílómetragjaldi. Hins vegar á ekki að reikna starfsmanni bifreiðahlunnindi vegna nota hans á öðrum bifreiðum en að ofan greinir. Þannig ber ekki að reikna bifreiðahlunnindi af virðisaukabifreiðum.

C. Kostnaður á höfuðstól.

Svar við þessum hluta spurningarinnar felst í A-lið hér að framan.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Bjarnfreður Ólafsson