Dagsetning                 Tilvísun
29.jan. 1990                           10/90

 

Virðisaukaskattur – fótaaðgerðir.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 16. okt. 1989, þar sem óskað er staðfestingar ríkisskattstjóra á því að fótaaðgerðir teljist til eiginlegrar heilbrigðisþjónustu í skilningi laga um virðisaukaskatt. Segir í bréfi yðar að fótaaðgerðum sé sinnt á allflestum sjúkrastofnunum og elliheimilum, svo og á fótaaðgerðastofum. Þá segir að þjónustan sé í flestum tilvikum notuð af ellilífeyrisþegum, öryrkjum og öðrum sem eigi við fótamein að stríða, þar á meðal fólki með brostið ónæmiskerfi af ýmsum orsökum, sem þar af leiðandi fái ýmsa kvilla, svo sem sveppi, sprungna hæla, exem, þykkar og niðurgrónar neglur, líkþorn og tábergsig.

Ýmis heilbrigðisþjónusta er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Beinlínis er tekið fram að lækningar og tannlækningar séu undanþegnar virðisaukaskatti, en jafnframt er „önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta“ undanþegin. Við ákvörðun þess hvort tiltekin þjónusta falli undir undanþáguákvæðið verður starfsemin að mati ríkisskattstjóra að uppfylla eftirtalin skilyrði:

1. Um sé að ræða þjónustu heilbrigðisstéttar sem fellur undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál.

2. Almennt sé þjónusta

a) veitt einstaklingum á grundvelli tilvísunar frá lækni eða

b) hún greidd af Tryggingastofnun ríkisins eða sjúkrasamlagi að hluta eða að fullu.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum mun þjónusta félagsmanna yðar ekki uppfylla þessi skilyrði. Ber þeim því að innheimta og skila virðisaukaskatti af þóknun fyrir veitta þjónustu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.