Dagsetning                       Tilvísun
24. september 1993                            539/93

 

Virðisaukaskattur af starfsemi fjáröflunarfélags

Vísað er til bréfs yðar, dags. 25. ágúst 1993, þar sem óskað er upplýsinga um hvort heimilt sé, fyrir fjáröflunarfélag á vegum K, að nota innskattsfrádrátt af kostnaði vegna fjáröflunar félagsins. Upplýst er að fjáröflunarfélagið er skráður aðili og flestir tekjuliðir þess eru virðisaukaskattskyldir.

Samkvæmt 1. mgr. l. gr. reglugerðar nr.192/1993, um innskatt, má aðili, sem skráður hefur verið skv. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem frá og með skráningardegi fellur á kaup hans á skattskyldum vörum og þjónustu til nota í rekstrinum, enda byggist innskattskrafa hans gagnvart ríkissjóði á skjölum og bókhaldi sem fullnægjandi er samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattskyldra aðila.

Vegna starfsemi yðar er rétt að taka fram að aðili sem hefur með höndum blandaða starfsemi, þ.e. starfsemi sem er að hluta virðisaukaskattskyld en að hluta undanþegin skattskyldu, sbr. 2. gr. laga nr. 50/1988, með síðari breytingum, getur talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem fellur á kaup hans á vörum og þjónustu sem eingöngu er keypt til nota við hinn skattskylda hluta starfseminnar. Óheimilt er hins vegar að telja til innskatts virðisaukaskatt af vörum og þjónustu sem eingöngu varðar hinn skattfrjálsa hluta starfsemi aðila með blandaða starfsemi.

Ef um er að ræða virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrar fjármunum, vörum og þjónustu, sem keypt er til nota bæði vegna skattskylds þáttar í starfsemi aðila og skattfrjáls þáttar, er heimilt að telja til innskatts í sama hlutfalli og sala skattskyldrar vöru og þjónustu (án virðisaukaskatts) hvers reikningsárs er af heildarveltu ársins.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Árni Harðarson