Dagsetning                       Tilvísun
21. september 1993                        540/1993

 

Virðisaukaskattur-verktakagreiðslur.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 10. febrúar 1993, þar sem er leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort verktakagreiðslur frá íþróttafélagi til aðila sem sér um daglegan rekstur félagsins og einstakra deilda þess séu virðisaukaskattsskyldar.

Munur er gerður á því tvennu samkvæmt lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, hvort um er að ræða launþega eða verktaka. Þeir einir eru skattskyldir samkvæmt lögum um virðisaukaskatt sem hafa með höndum sjálfstæða starfsemi eða atvinnurekstur. Launþegar eru á hinn bóginn ekki skattskyldir samkvæmt lögunum.

Almennt séð er mikill munur á stöðu launþega og verktaka, bæði hvað varðar réttindi og ábyrgð, og því skiptir miklu hvar mörkin verða dregin milli vinnusamninga og verksamninga. Það verður hins vegar ekki gert á einfaldan hátt, heldur er háð aðstæðum í hverju einstöku tilviki.

Þó ekki verði sett fram algild regla um það, hvenær einstaklingur skuli teljast launþegi og hvenær verktaki má telja upp ýmis atriði sem skipt geta máli í vafatilvikum. Öll atriði samnings þess er gerður er verður að skoða í heild og einstakir þættir vega þar misþungt.

Þau atriði í bréfi yðar sem benda til þess að um verksamning sé að ræða eru þau helst:

  1. Starfsmaður leggur til bifreið og stundum síma til starfsins.
  2. Starfsmaður er ekki aðili að stéttarfélagi.
  3. Starfsmaður sér sjálfur um staðgreiðslu skatta.

Þau atriði í bréfi yðar sem benda til að um vinnusamning sé að ræða eru þau helst:

  1. Ráðningarsamningur er ótímabundinn.
  2. Félagið lætur starfsmanni í té starfsaðstöðu, tölvu ofl.
  3. Starfsmaður hefur reglulegan vinnutíma og viðveruskyldu.
  4. Íþróttafélagið hefur húsbóndavald þ.e. rétt til þess að stjórna vinnu starfsmannsins og ákveða hvar og hvenær verkið er unnið.
  5. Starfsmaður á rétt til orlofslauna.
  6. Starfsmaður nýtur veikindalauna.
  7. Starfsmaður fær föst mánaðarlaun.

Ríkisskattstjóri telur með hliðsjón af framansögðu að um sé að ræða vinnusamning og þér séuð launþegi, því ber yður ekki að innheimta og skila virðisaukaskatti af starfsemi yðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Grétar Jónasson.