Dagsetning                       Tilvísun
24. september 1993                            547/93

 

Virðisaukaskattur rekstraraðila X

Vísað er til bréfs yðar, dags. 16. ágúst 1993, þar sem farið er fram á túlkun ríkisskattstjóra á virðisaukaskattsskyldu rekstraraðila keiluspilasala.

Í bréfi yðar kemur fram, að K, sem er eitt af sérsamböndum Í, hefur óskað eftir liðsinni Í varðandi innheimtu á virðisaukaskatti hjá rekstraraðilum X. Samkvæmt bréfaskriftum milli skattyfirvalda og K er lagður virðisaukaskattur á X á þeirri forsendu að íþróttin er iðkuð í X sem reknir eru af einkaaðilum. Dregið er í efa að túlkun þessi standist, og þar sem öll íþróttafélög eigi að sitja við sama borð er m.a. bent á eftirfarandi rök:

  1. Í 5. tl. 3. mgr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, komi ótvírætt í ljós að vilji löggjafans sé sá, að hverskonar íþróttastarfsemi skuli undanþegin virðisaukaskatti. Engin ástæða sé til að ætla annað en að X skuli sitja við sama borð og aðrar íþróttagreinar.
  2. Embætti ríkisskattstjóra hefur eingöngu vísað til 2. gr. laganna, en þar er aðeins fjallað um starfsemi þá sem undanþegin er, en ekki skattaðilanna. Ef miðað er eingöngu við grein þessa verði að álíta að X íþróttamanna falli undir undanþáguákvæðið án tillits til þess hver sé eigandi aðstöðunnar. Sem dæmi megi nefna að rekstur skóla sé undanþegin virðisaukaskatti skv. 3. tl. greinarinnar hvort sem hann er á vegum opinbers aðila eða einkafyrirtækis.
  3. Lög um virðisaukaskatt gera ráð fyrir að aðili geti bæði rekið skattskylda þjónustu og óskattskylda. Samkvæmt þessu er spurt, hvort ekki megi leysa málið með þeim hætti að rekstraraðilar X innheimti æfingagjöld eða félagsgjöld eða hvort tveggja þegar um er að ræða iðkendur sem eru félagsbundnir í viðkomandi X eða viðurkenndir sem iðkendur af K. Innheimta slíkra gjalda yrði án virðisaukaskatts. Þessi háttur sé í samræmi við danska framkvæmd, en dönsku lögin munu hafa verið höfð til hliðsjónar við gerð íslensku laganna.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram, að í bréfi ríkisskattstjóra til K, dags. 13. maí 1993, kemur fram sú túlkun embættisins að rekstur X teljist ekki til íþróttastarfsemi í skilningi virðisaukaskattslaga, nema hann sé í höndum viðurkenndra íþróttafélaga. Ætli íþróttafélag að notfæra sér aðstöðu X í einkaeign, þá telst það til aðfanga, en undanþágur skv. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga ná aðeins til sölu eða afhendingar vinnu og þjónustu sem þar getur, en ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi, sbr. 4. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga.

Í Danmörku gildir sú regla, að það ber að innheimta virðisaukaskatt af leigu á X sem er beint eða óbeint í tengslum við veitingahúsarekstur. Þetta gildir jafnframt þegar X uppfyllir alþjóðlegar stærðarkröfur. Ef greiðsla eiginlegra íþróttafélaga vegna nota á slíkum brautum er gerð upp sérstaklega, þá er hægt að halda greiðslunni utan við virðisaukaskattsskylda veltu.

Sá munur, sem er á túlkunum einstakra liða 3. mgr. 2. gr. íslenskra og danskra virðisaukaskattslaga, kemur fram í því, að í Danmörku er ekkert ákvæði er samsvarar 4. mgr. 2. gr. íslensku laganna, en í þeirri málsgrein segir að „undanþágur skv. 3. mgr. ná aðeins til sölu eða afhendingar vinnu og þjónustu sem þar getur, en ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi, sbr. 3. og 4. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr.“.

Til þess að almennur rekstur X geti talist undanþeginn virðisaukaskatti yrði að geta þess sérstaklega í 5. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga, rétt eins og gert er með aðgangseyri að sundstöðum, skíðalyftum, íþróttamótum, íþróttasýningum og heilsuræktarstofum. En sé rekstur aftur á móti í höndum viðurkennds íþróttafélags, þá telst hann til íþróttastarfsemi samkvæmt ákvæðinu og því án virðisaukaskatts.

Að lokum skal tekið fram, að lausafjárleiga er skattskyld, einnig þótt hún tengist íþróttastarfsemi viðurkennds íþróttafélags. Til dæmis ber að innheimta og skila virðisaukaskatti af sérstakri útleigu á skíðum, boltum, skóbúnaði o.þ.h.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson