Dagsetning                       Tilvísun
29. september 1993                            549/93

 

Virðisaukaskattur af stöðvargjöldum leigubifreiðastöðva

Vísað er til bréfs yðar, dags. 2. mars 1993, þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort þjónusta leigubifreiðastöðvar, þ.e. símaþjónusta, innheimta og önnur þjónusta sem nauðsynleg er við þessa starfsemi, sé virðisaukaskattsskyld.

Að áliti ríkisskattstjóra er atvinnustarfsemi af því tagi sem lýst er í spurningunni skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Ekki verður talið að hún geti fallið að neinu leyti undir ákvæði C. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna heldur er hér um að ræða aðföng viðkomandi leigubifreiðastjóra, þ.e. 4. mgr. greinarinnar á við í þessu tilviki.

Af framanrituðu leiðir að bifreiðastöðvum ber að innheimta og skila virðisaukaskatti af afgreiðslu- og stöðvargjöldum, hverju nafni sem nefnast, þ.m.t. innheimtugjöldum. Þetta gildir einnig um stöðvar í eigu bifreiðastjóranna, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt, en þar kemur fram að samvinnufélög og önnur félög, sem selja eða afhenda vörur eða skattskylda þjónustu, séu skattskyld, enda þótt þau selji aðeins félagsmönnum sínum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Árni Harðarsson