Dagsetning                       Tilvísun
29. september 1993                            550/93

 

Virðisaukaskattur af þjónustu við erlenda aðila

Vísað er til bréfs yðar, dags. 17. maí 1993, þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta skuli virðisaukaskatt af lögmannsþóknun vegna innheimtustarfa fyrir erlendan aðila sem leitað hefur til yðar og óskað eftir því að þér innheimtið kröfu hans á hendur íslenskum aðila.

Í I. kafla reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá, með síðari breytingum, er að finna ákvæði sem undanþiggja sölu tiltekinnar þjónustu, til erlendra aðila, virðisaukaskattsskyldri veltu.

Skilyrði fyrir undanþágu skv. I. kafla eru að selt sé til aðila sem hvorki hefur búsetu né starfsstöð hér á landi og

a) Þjónustan sé nýtt að öllu leyti erlendis

eða

b) kaupandi gæti – ef starfsemi hans væri skráningarskyld hér á landi samkvæmt lögum um virðisaukaskatt – talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts, sbr. 15. og 16. gr. laganna. Í þessu tilviki þarf kaupandi að sýna fram á hvers konar atvinnurekstur hann hefur með höndum, með vottorði frá bærum yfirvöldum í heimalandi hans, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 194/1990.

Þjónusta sem er í tengslum við starfsemi aðila, eignir, réttindi eða hagsmunagæslu hér á landi fellur að áliti ríkisskattstjóra ekki undir a-lið, þ.e. þá telst hún nýtt að einhverju eða öllu leyti hér á landi. Í þessum tilvikum gæti undanþága hins vegar byggst á b-lið.

Sem dæmi um þjónustu sem telja má að nýtt sé að hluta eða að öllu leyti hér á landi má nefna málflutningsstörf fyrir íslenskum dómstólum, innheimtumál gegn íslenskum skuldurum, milligöngu um einkaleyfa-, mynstur- eð a vörumerkjaskráningu, gæslu hagsmuna erlendra erfingja sem kalla til arfs í íslensku dánarbúi, álitsgerðir um íslenskar réttarreglur, t.d. vegna viðskiptahagsmuna hér á landi, svo og aðstoð vegna fyrirhugaðra kaupa eða stofnunar fyrirtækis hér á landi. Af því leiðir að í tilfelli því er hér um ræðir er undanþáguskilyrði a-liðs l. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 194/1990 ekki fullnægt.

Eins og fram kemur í bréfi yðar er í þessu tilviki um að ræða erlendan banka. Samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er þjónusta banka undanþegin virðisaukaskatti. Skilyrði b-liðar reglugerðar nr. 194/1990 er þ.a.l. heldur ekki fullnægt og telur ríkisskattstjóri að innheimta beri virðisaukaskatt af þessari lögmannsþóknun fyrir erlenda aðilann.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Árni Harðarsson