Dagsetning Tilvísun
29. september 1993 551/93
Endurgreiðsla virðisaukaskatts
Vísað er til bréfs yðar, dags. 10. febrúar 1993, þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort endurgreiðsla fáist á virðisaukaskatti vegna vinnu manna á byggingarstað vegna húsnæðis er mun verða heimili vegalausra X.
Skv. 2. gr. reglugerðar nr. 449/1990, um virðisaukaskatt af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, með síðari breytingum, tekur endurgreiðsla vegna vinnu manna á byggingarstað ekki til orlofshúsa, sumarbústaða eða bygginga fyrir starfsemi sem fellur undir ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Í 2. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er ýmis félagsleg þjónusta, svo sem rekstur leikskóla, barnaheimila, skóladagheimila og upptökuheimila og önnur hliðstæð þjónusta, nefnd. Endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði er því ekki heimil að því er varðar byggingu tengda félagslegri þjónustu.
S eru samtök sem hafa það að markmiði að hjálpa félagslega bágstöddum einstaklingum og eru í nánu samstarfi við félags- fjármála- og landbúnaðarráðuneytið hvað varðar rekstur þess, en heimili það er hér um ræðir nýtur framlags á fjárlögum hvers árs og miðast upphæð þess við rekstrarkostnað heimilisins, og afnot af jörð í eigu ríkisins. Því verður að telja að rekstur heimilis þess er hér um ræðir flokkist undir félagslega þjónustu og falli þar með undir 2. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Vegna ofangreindra ástæðna er ekki að finna lagaheimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu iðnaðarmanna við uppbyggingu meðferðarheimilis á G.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Árni Harðarsson