Dagsetning Tilvísun
30. september 1993 553/93
Þjónusta fyrir erlenda aðila
Vísað er til bréfs yðar, dags. 25. ágúst 1993, þar sem óskað er eftir skriflegu áliti ríkisskattstjóra á því, hvort félagið og þeir ráðgjafaverktakar sem því tengjast séu undanþegnir innheimtu á virðisaukaskatti af þeirri vinnu sem þeir inna af hendi fyrir erlenda aðila.
Í bréfi yðar kemur fram að N hefur nýverið gert samkomulag við F, sem er eignarhaldsfélag í eigu stjórnvalda í X, um að aðstoða við að koma á fót fiskvinnslu og útgerðarfyrirtæki í X. Vinna sú sem framkvæmd verður fyrir fyrirtæki þetta er fyrst og fremst fólgin í ráðgjöf, bæði tæknilegri og viðskiptalegri. N verður umsjónar- og samræmingaraðili með þessari ráðgjafavinnu, sem unnin verður af sjálfstæðum íslenskum verktökum sem hinn namibíski aðili hefur samþykkt. Verktakarnir skrifa sjálfir út reikninga í eigin nafni á hið namibíska fyrirtæki og framvísa þeim til N sem innheimtir þá og sér um að greiða verktökunum. Auk þessa gerir N X fyrirtækinu reikninga fyrir umsjón o.fl.
Til svars bréfi yðar skal tekið fram, að ráðgjafaþjónusta fyrir erlendra aðila er undanþegin skattskyldri veltu samkvæmt 3. tl. 2. gr. reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá, enda séu skilyrði 1. gr. reglugerðarinnar uppfyllt, þ.e. að annað hvort sé þjónusta að öllu leyti nýtt erlendis eða kaupandi gæti – ef starfsemi hans væri skráningarskyld hér á landi samkvæmt lögum nr. 50/1988 – talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts, sbr. 15. og 16. gr. nefndra laga.
Þar sem þjónusta Z ráðgjafaverktaka á þeirra vegum, sem selja sína þjónustu beint til hins erlenda aðila, telst að öllu leyti nýtt erlendis, þá virðist mega fallast á að þjónusta þeirra sé undanþegin skattskyldri veltu samkvæmt 3. tl. 2. gr., sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 194/1990.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson