Dagsetning Tilvísun
4. október 1993 555/93
Form sölureikninga
Vísað er til bréfs yðar, dags. 20. ágúst 1993, þar sem beðið er um samþykki ríkisskattstjóra á tilteknu reikningsformi, þar sem þrjú fyrirtæki gefa sameiginlega út reikning og nöfn þeirra allra áletruð í haus reikningsins.
Í bréfi yðar kemur fram, að bókhaldsforrit yðar aðgreinir orkutegundir (hitaveitu, rafmagnsveitu og vatnsveitu) og að í forritinu séu þrjú meginatriði sem skilja á milli þeirra. Fyrst að telja eru mismunandi bókstafir, í öðru lagi eru taxtanúmer og í þriðja lagi mælisnúmer. Við sölu myndist dagbók hvers reiknings ásamt númeri, byggður á fyrrgreindum aðgreininúmerum. Um hver mánaðarmót yrðu teknar söluskýrslur fyrir hverja orkutegund byggð á bókstaf orkutegundar og taxtanúmerum. Salan yrði síðan bókuð handvirkt í bókhaldsforritið samkvæmt viðkomandi söluskýrslum. Tilgangurinn með að hafa öll þrjú orkufyrirtækin í haus reikninganna sé eingöngu til hagræðingar fyrir fyrirtækin og notendur og hafi í sjálfu sér ekkert með aðskilnað veitnanna í peningamálum að gera. Að lokum er tekið fram, að sé þessi aðferð ekki heimil, þá sé farið fram á að ríkisskattstjóri veiti undanþágu til notkunar á þessu reikningsformi.
Til svars bréfi yðar skal tekið fram, að fyrirhuguð sameiginleg reikningsútgáfa tveggja virðisaukaskattsskyldra aðila samrýmist eigi 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og 3. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.
Í 1. mgr. 10. gr. bókhaldsreglugerðarinnar kemur fram að ríkisskattstjóri geti, ef sérstakar aðstæður gera aðila ómögulegt að skrá sölu sína í sjóðvél eða á fyrir fram tölusetta reikninga, heimilað aðila að nota annað söluskráningarkerfi, en mælt er fyrir um í 3.- 9. gr. reglugerðarinnar. Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á að veita umbeðna undanþágu, enda er orkuveitunum á engan hátt ómögulegt að fara með form sölureikninga sinna eftir almennum reglum.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson