Dagsetning                       Tilvísun
7. október 1993                            556/93

 

Virðisaukaskattur af bókum og öðrum ritum

Vísað er til bréfs yðar, dags. 6. október 1993, þar sem óskað er staðfestingar á því að upplýsinga- og minnisalmanak, sem hugsað er til daglegrar skráninga og hefur að geyma ýmsar hagnýtar upplýsingar, beri 14% virðisaukaskatt. Í bréfi yðar kemur einnig fram að hver opna hafi að geyma fjóra daga og að inni á milli síðanna eru lítil mannakorn (spakmæli).

Til svars bréfi yðar skal tekið fram að samkvæmt 5. tl. 2. mgr.14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, ber sala tímarita 14% virðisaukaskatt. Samkvæmt 6. tl. sömu greinar ber sala bóka á íslenskri tungu, jafnt frumsaminna sem þýddra 14% virðisaukaskatt. Prentvarningur sem er hvorki talinn vera tímarit eða bók í skilningi 14. gr. virðisaukaskattslaga ber hins vegar 24,5% virðisaukaskatt. Það fer því eftir eðli prentvarnings hvort hann ber 14% eða 24,5% virðisaukaskatt. Almanök, dagbækur og önnur regluleg útgáfa rita sem hafa að geyma dagatöl telst hvorki vera tímarit eða bók í skilningi 14. gr. virðisaukaskattslaga, nema þegar dagatal er minni hluti víðtækrar handbókar. Ef svo er þá er um 14% virðisaukaskatt að ræða.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Árni Harðarsson