Dagsetning Tilvísun
29.jan. 1990 13/90
Virðisaukaskattur af útvarpsstarfsemi.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 6. desember sl., þar sem fram koma ýmsar spurningar um virðisaukaskatt og áhrif hans á starfsemi Ríkisútvarpsins. Skal leitast við að svara þessum spurningum í almennu máli.
I.
Útvarpsrekstur er virðisaukaskattsskyld starfsemi. Byggist skattskyldan á meginreglu virðisaukaskattslaga um skattskyldu þjónustu sem fram kemur í 2. mgr. 2. gr. þeirra. Hluti seldrar þjónustu er hins vegar undanþeginn skattskyldri veltu, sbr. 9. tölul. l. mgr. 12. gr. laganna (afnotagjöld útvarpsstöðva). Útvarpsstöð hefur rétt til frádráttar innskatts – að teknu tilliti til reglna 16. gr. laganna – jafnt af aðföngum er varða afnotagjöld sem aðrar tekjur, svo sem auglýsingatekjur.
Fyrrnefnd meginregla 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 leiðir til þess að útvarpsstöð verður að ganga út frá því að öll aðkeypt þjónusta vegna starfseminnar beri virðisaukaskatt. Sá skattur kemur síðan sem innskattur hjá útvarpsstöðinni. Hér verður þó að slá tvo varnagla. Í fyrsta lagi er ýmis þjónusta undanþegin virðisaukaskatti skv. 3. mgr. 2. gr. laganna og í öðru lagi kann að vera að viðskiptamaður stöðvarinnar (seljandi þjónustunnar) sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili. Ef annað hvort eða bæði þessi atriði eiga við innheimtir seljandi ekki virðisaukaskatt og hefur útvarpsstöð þá eðlilega engan innskattsfrádrátt af þeim aðföngum.
II.
Dagskrárgerð fyrir útvarp, þ.e. stjórn upptöku og/eða útsendingar dagskrár, svo og umsjón með þáttum, er skattskyld starfsemi. Kanna þarf hins vegar hverju sinni hvort greiðsla fyrir dagskrárgerð sé launagreiðsla eða greiðsla til verktaka. Vísast um mörk þessa til bréfs ríkisskattstjóra til Ríkisútvarpsins, dags. 22. janúar 1988. Þar kemur fram það álit ríkisskattstjóra að greiðslur til umsjónarmanna þátta, sem fá aðstöðu til undirbúnings þáttagerða ásamt aðstoð frá launuðum starfsmönnum stofnunarinnar og þurfi sjáanlega ekki að hafa neinn kostnað við þáttagerðina, séu launagreiðslur en ekki greiðslur til verktaka. Öðru máli gegnir hins vegar um þá aðila sem taka að sér þáttagerð og leggja t.d. fram tæki við upptöku og gerð þáttanna, húsnæði eða annast aðra aðstöðusköpun vegna þáttagerðanna og bera fjárhagslega áhættu vegna starfsemi sinnar. Greiðslur til slíkra aðila eru í eðli sínu verktakagreiðslur.
Þeir sem teljast hafa sjálfstæða starfsemi með höndum samkvæmt framansögðu (verktakar) eiga að innheimta virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir þjónustu sína, enda nemi skattskyld sala þeirra meiru en 155.800 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1990). Þeim ber að gera reikning fyrir þjónustu sinni, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Óheimilt er að Ríkisútvarpið sjái um reikningagerð fyrir sjálfstætt starfandi aðila.
Virðisaukaskattur leggst á heildarendurgjald vegna veittrar þjónustu, sbr. reglur um skattverð í III. kafla laga nr. 50/1988. Til skattverðs telst kostnaður vegna ferða (aksturskostnaður) og gistingar, einnig þótt hann sé ákvarðaður í formi dagpeninga, svo og allur kostnaður sem innifalinn er í verði þjónustunnar eða sem seljandi krefur kaupanda (útvarpsstöð) sérstaklega um.
III.
Það er ekki á valdsviði ríkisskattstjóra að svara spurningum sem snerta innheimtu virðisaukaskatts af innflutningi, þar á meðal um innheimtu virðisaukaskatts af greiðslum fyrir sýningarrétt af erlendu efni sem sýnt er í sjónvarpi. Rétt er að beina þessum spurningum að fjármálaráðuneytinu.
Þó skal tekið fram að virðisaukaskattur leggst ekki að svo stöddu á greiðslur til erlendra fréttastofa eða fréttaritara Ríkisútvarpsins erlendis fyrir fréttaþjónustu. Sama er að segja um greiðslur fyrir sýningarrétt af erlendum íþróttaviðburðum o.þ.h., sem sýndir eru hér á landi í beinni útsendingu í gegnum gervihnött, og aðildargjöld að samtökum evrópskra útvarpsstöðva. Til skattlagningar einhverra þessarra liða kann að koma verði sett reglugerð á grundvelli 35. gr. laga nr. 50/1988, en þar er fjármálaráðherra heimilað að kveða svo á í reglugerð að greiða skuli virðisaukaskatt af greiðslum fyrir skattskylda þjónustu sem keypt er erlendis sé hún veitt eða nýtt hérlendis.
IV.
Ýmis þjónusta sem útvarpsstöðvar kaupa vegna starfsemi sinnar er undanþegin virðisaukaskatti.
Starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi er undanþegin virðisaukaskatti skv. 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.
Þetta undanþáguákvæði tekur almennt til höfunda og flytjenda efnis í útvarp og sjónvarp. Ákvæðið tekur hins vegar ekki til þóknunar fyrir t.d. dagskrárgerð (sjá II. kafla þessa bréfs) eða sýningarrétt að kvikmynd.
Til sambærilegrar liststarfsemi í skilningi ákvæðisins telst m.a. vinna tónlistarmanna, plötusnúða, leikara og leikstjóra.
Þóknun fyrir bókmenntaþýðingu til birtingar í fjölmiðli er undanþegin á grundvelli þessa ákvæðis. Um skýringu hugtaksins bókmenntaþýðing vísast til meðfylgjandi bréfs til Rithöfundasambands Íslands. Þýðing á efni til flutnings í sjónvarpi fellur almennt undir undanþáguna. Ekki skiptir máli hvort um er að ræða þýðingu á listrænu efni, fræðsluefni eða léttmeti. Ekki skiptir heldur máli hvort þýðandi er félagi í Rithöfundasambandi Íslands eða ekki.
Starfsemi þeirra sem taka að sér að lesa texta við sjónvarpsefni er undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt þessu ákvæði. Félagsaðild að Bandalagi íslenskra leikara eða öðrum samtökum skiptir ekki máli í þessu sambandi. Þóknun fyrir flutning erindis eða lestur útvarpssögu í hljóðvarp er undanþeginn á sama grundvelli.
V.
Auglýsing nr. 617/1989, um niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af ýmsum aðföngum til samkeppnisiðnaðar, tekur ekki til virðisaukaskatts, sbr. 14. gr. hennar.
Öllum virðisaukaskattsskyldum aðilum ber að aðgreina innlend og erlend vörukaup í bókhaldi, sbr. 21. gr. reglug. nr. 501/1989.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.