Dagsetning Tilvísun
29. nóvember 1993 580/93
Heilbrigðisþjónusta
Vísað er til bréfs yðar, dags. 24. nóvember 1993, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á skattskyldu rannsóknarverkefnis hjúkrunarfræðings, sem vinnur sem verktaki fyrir opinbera aðila í heilbrigðismálum.
Í bréfi yðar kemur fram, að þér hafið tekið að yður að vera verkefnisstjóri rannsóknarverkefnis, sem unnið er á vegum Heilbrigðis- og tryggingamálaráðu-neytisins, öldrunarlækningadeilda Borgarspítalans, öldrunarstofnana og félagsmála-stofnana á Stór-Reykjavíkursvæðinu og í Eyjafirði. Verkefnið er hluti af samnorrænu verkefni, en markmið þess er að skrá heilsufar og meta hjúkrunarþörf íbúa á öldrunarstofnunum. Gert er nákvæmt mat á heilsufari hins aldraða auk þess sem athugunin felur í sér gæðamat á þjónustu og hversu mikil þörf hans er fyrir hjúkrun og aðra þjónustu. Yfirumsjón með verkefninu hefur stýrihópur, en í honum eru fimm nefndarmenn skipaðir af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
Til svars bréfi yðar skal tekið fram að í 1. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er undanþegin virðisaukaskatti þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, tannlæknar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta. Við ákvörðun þess hvort tiltekin þjónusta falli undir hugtakið „önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta“ í 1. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga, þarf starfsemi að mati ríkisskattstjóra að uppfylla þau skilyrði að (1) þjónusta aðila falli undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál, og (2) að þjónusta þessara aðila felist í meðferð á líkama sjúklings til lækninga eða hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar.
Þar sem þjónusta yðar virðist uppfylla ofangreind skilyrði, þá er hún undanþegin skattskyldu samkvæmt 1. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson.