Dagsetning Tilvísun
29. nóvember 1993 582/93
Virðisaukaskattsskylda starfsmanns blaðaútgáfu
Vísað er til bréfs yðar, dags. 11. febrúar 1993, þar sem óskað er upplýsinga um það hvort reikna eigi virðisaukaskatt af greiðslum er þér hafið fengið frá félagasamtökum. Í bréfinu kemur fram að greiðslurnar séu tilkomnar vegna þess að þér annist útgáfu á riti er félagasamtökin gefa út og þér séuð í ritstjórn þess. Þá kemur það fram að þér þýðið hluta af efni blaðsins og semjið sumt sjálfur auk annarra starfa við blaðaútgáfuna.
Þess má geta að samkvæmt 12. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaganna þá er m.a. kveðið á um það að starfsemi rithöfunda við samningu hugverka sé undanþegin virðisaukaskatti. Þá má og geta þess að almennt er þýðingarstarfsemi skattskyld starfsemi, þó með þeirri undantekningu ef um þýðingu bókmenntaverks er að ræða og þýðandi getur leyft sér visst listrænt frelsi gagnvart hinum upphaflega texta.
Í bréfinu kemur fram að ritið er rekið með tapi og er einvörðungu rekið til þess að hafa aðgengilegt efni fyrir stóran hóp hjartasjúklinga, lækna og starfsfólk á sviði heilbrigðismála auk þess sem ritið sé liður í forvarnarstarfi. Það er ljóst að blaðaútgáfan sjálf er ekki virðisaukaskattsskyld þar sem að enginn hagnaðartilgangur er af starfseminni.
Almennt séð er mikill munur á stöðu launþega og verktaka, bæði hvað varðar réttindi og ábyrgð og því skiptir miklu hvar mörkin verða dregin milli vinnusamninga og verksamninga. Það verður hins vegar ekki gert á einfaldan hátt, heldur er háð aðstæðum í hverju einstöku tilviki.
Þó ekki verði sett fram algild regla um það, hvenær einstaklingur skuli teljast launþegi og hvenær verktaki má telja upp ýmis atriði sem skipt geta máli í vafatilvikum. Öll atriði samnings þess er gerður er verður að skoða í heild og einstakir þættir vega þar misþungt.
Þau atriði er benda til þess að um vinnusamning sé að ræða eru þau helst:
- Vinnuveitandi hefur húsbóndavald yfir starfsmanni á þann hátt að ritnefnd getur hafnað verkum starfsmannsins.
- Ráðningasamningurinn er ótímabundinn en starfsmaðurinn er við störf 9 mánuði á ári.
- Starfsmaður fær föst mánaðarlaun.
Þau atriði er benda til þess að um verksamning sé að ræða eru þau helst:
- Starfsmaður hefur aðallega starfsaðstöðu utan þeirrar stofnunar er hann vinnur fyrir.
- Starfsmaður hefur ekki fasta viðveruskyldu.
- Starfsmaður er ekki í stéttarfélagi.
- Starfsmaður skilar sjálfur staðgreiðslu skatta.
- Starfsmaður hefur ekki rétt til orlofslauna.
- Starfsmaður hefur ekki rétt til veikindalauna.
- Starfsmaður færir kostnað vegna starfsins á rekstrarreikning.
Ríkisskattstjóri telur með hliðsjón af framansögðu að um sé að ræða verksamning og þér séuð verktaki.
Að framansögðu ber yður að útskatta þjónustu yðar. Þess má geta að heimilt er að telja 80,32% af hinni mótteknu fjárhæð til skattskyldrar veltu.
Virðingarfyllst
f.h. ríkisskattstjóra
Grétar Jónasson