Dagsetning                       Tilvísun
1. desember 1993                            586/93

 

Uppgjör skattskyldrar veltu

Með bréfi yðar, dags. 20. júlí 1993, er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvernig fari um uppgjör virðisaukaskatts. Í bréfinu er tekið fram að aðaltekjur yðar koma frá Pósti og síma og að uppgjör komi frá þeim (reikningur) á 3ja mánaða fresti. Þér fáið einnig yfirlit frá þeim mánaðarlega, en það sé einungis tölvuútskrift og sé ekki hægt að telja hana til reiknings.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum virðist Póstur og sími selja þjónusta yðar í umsýslusölu. Í grundvallaratriðum gera lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, engan mun á umsýslusölu og almennri endursölu (sölu sem fer fram fyrir reikning endurseljanda). Sala eða afhending á vöru eða þjónustu sem seld er í umsýslusölu telst til skattskyldrar veltu skráðs aðila, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna. Skattverð miðast við heildarsöluverð hins selda, sbr. almennar reglur um skattverð í 7. gr. laganna. Afhending vöru eða þjónustu frá umsýsluveitanda til umsýslumanns telst og til skattskyldrar veltu skráðs umsýsluveitanda. Hins vegar á hann val um það hvort hann telur söluna til skattskyldrar veltu við afhendingu eða þegar uppgjör fer fram við umsýslumann, sbr. 4. mgr. 13. gr. laganna, enda gæti hann skilyrða þess ákvæðis.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson